145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

upplýsingar kröfuhafa slitabúanna.

[15:16]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég held að ekkert okkar hér í þessum sal sé þess endilega umkomið að vita betur en almenningur hvað er í þágu almennings eða hverju almenningur hefur áhuga á. Þess vegna er mikilvægt að við í stjórnarandstöðunni sinnum því aðhaldshlutverki sem okkur er ætlað.

Það sem hæst stendur núna eru auðvitað Panama-skjölin og sá mikli fjöldi aflandsfélaga sem virðist hafa verið stofnaður á Íslandi, ekki síst fyrir hrun, fyrir ráðgjöf íslenskra banka í skjóli ónógs eftirlits og kannski veikrar löggjafar.

Á morgun er áætluð hér sérstök umræða milli mín og hæstv. ráðherra um aðgerðir gegn aflandsfélögum og skattaskjólum á innlendum og alþjóðlegum vettvangi og hvað hægt sé að gera til að breyta löggjöf og vinna betur að þessum málum.

Eitt af þeim málum sem ber hvað hæst í umræðunni, og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um núna, er sú staðreynd að ríkisstjórnin hefur ítrekað sagt að hún þurfi að sitja áfram til að ljúka afnámi hafta. Það þurfi að ljúka ákveðnum áföngum, svo sem útboði á aflandskrónum, og það sé fyrirséð að þær aðgerðir muni kalla á lagabreytingar.

Við höfum lagt á það áherslu í stjórnarandstöðunni að þetta eigi að vera þverpólitískt viðfangsefni og mig langar að spyrja hvað hæstv. ráðherra finnst um þá kröfu sem núna er uppi, um að það sé rétt að birta upplýsingar um hverjir eigi skuldabréf eða bankainnstæður í snjóhengjunni, hvort í þeim hópi séu aflandsfélög í eigu Íslendinga og hvort hugsanlegt væri, ef slíkir aðilar vilja ekki gefa upp raunverulegt eignarhald, að þeim yrði ekki sleppt úr landi.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Kemur slíkt til greina? Kemur til greina að grípa til einhverra aðgerða sem koma í veg fyrir að þeim aðilum sem ekki vilja gefa upp raunverulegt eignarhald verði sleppt úr landi?