145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

framlagning fjármálaáætlunar.

[15:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Samkvæmt lögum um opinber fjármál, sem tóku gildi á þessu ári, átti hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun 1. apríl eða fyrir 18 dögum. Lögin segja til um að fjármálaáætlun til næstu fimm ára hið skemmsta eigi að vera með greinargerð þar sem kynnt er stefnumótun fyrir einstök málasvið A-hluta ríkissjóðs og hvernig hún samræmist markmiðunum um þróun tekna og gjalda.

Alþingi barst bréf á dögunum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem tilgreint er að ekki hafi tekist að vinna áætlunina í tæka tíð en að hún verði lögð fram helst eigi síðar en 8. apríl, og í dag er 18. apríl.

Frumvörp um opinber fjármál höfðu verið lengi í undirbúningi og ljóst frá því snemma á síðasta ári að lögin tækju gildi í ár og fjárlög gerðu ráð fyrir kostnaði til þess meðal annars að gera fjármálaáætlun. Því kemur drátturinn á framlagningu áætlunarinnar sannarlega á óvart. Ég vil spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvenær von sé á henni. Og þrátt fyrir ótryggt stjórnmálaástand og þó að slík áætlanagerð verði háð fyrirvörum um breytingar á stefnu ríkisstjórnar að afstöðnum kosningum til Alþingis í haust er engu að síður mikilvægt að fyrir liggi áætlun til nokkurra ára sem fengið hefur umfjöllun á Alþingi.

Í greinargerð með frumvarpinu um ríkisfjármál er lögð áhersla á þetta því að með upplýsingunum, sem eiga að fylgja áætluninni, og umræðunni á Alþingi sé stuðlað að aukinni festu í hagstjórn og stöðugri forsendum fyrir áætlanagerð opinberra aðila. Þetta er kjarni málsins og eitt af mikilvægum markmiðum með lögum um opinber fjármál. Áætlunin er lögbundin og ekki er hægt að velja hvenær á að leggja hana fram. Ég spyr því: Hvenær kemur hún?