145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

framlagning fjármálaáætlunar.

[15:28]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Til þess að áætlunin fái vinnslu hér í þinginu er mikilvægt að hún komi fram strax og vinnsla hennar sé undir þegar verið er að tala um hvernig málum ljúki á þessu þingi, en hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur haldið því fram að leggja þurfi fram fjárlagafrumvarp í haust rétt fyrir kosningar. Það er vissulega úrlausnarefni að ákveða samningu og framlagningu fjárlagafrumvarps í eins ótryggu stjórnmálaástandi og nú ríkir hér á landi, en það er einfalt að setjast niður og finna lausn á því.

Ég minni á að haustið 2013 var framlagningu fjárlagafrumvarps frestað vegna þess að ríkisstjórnin taldi sig ekki hafa nægilegan tíma til að vinna frumvarpið. Mér finnst það fremur líkjast pólitískum skrípaleik en stjórnfestu að ríkisstjórn, sem er á síðustu starfsdögunum, leggi fram fjárlagafrumvarp í miðri kosningabaráttu, frumvarp sem ekki fær umræðu í þinginu og mun örugglega taka miklum breytingum í höndum nýrrar ríkisstjórnar.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að slíkt gangi gegn anda laga um festu og gagnsæi opinberra fjármála. Hvers vegna leggur hæstv. ráðherra áherslu á að þetta verði gert?