145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB.

[15:32]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Þetta eru, verð ég að segja, vonbrigði. Það er alveg klárt að fyrir kosningar gáfu verðandi þingmenn það út að áframhaldið yrði þannig að leggja ætti það í dóm þjóðarinnar hvort aðildarviðræðunum yrði haldið áfram. Það var alveg á hreinu. Með þetta fór svo fólk á kjörstað og kaus. Það er nefnilega þannig að þó að fráfarandi hæstv. utanríkisráðherra hafi skottast til Brussel er Alþingi Íslendinga ekki búið að draga umsóknina til baka. (Sjútvrh.: Það þarf þess ekki.) Alþingi samþykkti að fara í þessar aðildarviðræður en það hefur ekki ákveðið að draga umsóknina til baka. Það þarf að gera. Það er það ferli sem við þurfum að hafa uppi. Þess vegna segi ég að það eru mér gríðarleg vonbrigði að heyra að (Forseti hringir.) núverandi utanríkisráðherra ætli ekki að sinna samþykktum Alþingis.