145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

orðspor Íslands vegna Panama-skjalanna.

[15:35]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það er alltaf áhugavert að heyra í hæstv. ráðherrum þessa lands, það verður nú að segjast. Kastljós heimsins hefur beinst að Íslandi undanfarnar vikur og daga í kjölfar upplýsinga er vörðuðu tengsl íslenskra ráðamanna, meðal annars þáverandi forsætisráðherra, við fyrirtæki í skattaskjólum, meðal annars á Tortólu. Það getur varla talist vera ásættanlegt fyrir ímynd Íslands út á við, hvað þá inn á við, að lykilaðilar í ríkisstjórn Íslands, ekki einn heldur þrír, hafi verið bendlaðir við þennan Panama-leka.

Það hefur verið mikið fjölmiðlafár, eins og ég held að allir hér á þingi hafi tekið eftir, anddyrið hér inni var alveg stútfullt af fjölmiðlafólki. Fjölmiðlabeiðnir komu frá Japan, Noregi, Hong Kong, ég veit ekki hvað og hvað. Þessir fjölmiðlar erlendis lýsa Íslandi í ítarlegum fréttaskýringum sem bananalýðveldi. Mér finnst það ekki vera fallega til orða tekið um hæstv. Ísland. Mig langar því til þess að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvernig hún hyggst bregðast við þessari fjölmiðlaumfjöllun, hvort eitthvað sé í bígerð til þess mögulega að leiðrétta ímynd Íslands út á við og hvaða aðgerðir mundu þá helst fylgja, meðal annars hvort ekki sé kominn tími til að Ísland standi við stóru orðin um að vera lýðræðisríki sem á að vera fyrirmynd fyrir Evrópu og heiminn allan.