145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

orðspor Íslands vegna Panama-skjalanna.

[15:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það sem við höfum verið að gera: Upplýsingadeildin okkar fór strax í að greina þessa umræðu og athuga hversu umfangsmikil hún væri og hvernig ætti mögulega að bregðast við henni. Eitt af því sem kom í ljós var það að umfjöllunin var auðvitað langmest um það leyti þegar forsætisráðherra sagði af sér og mynduð var ný ríkisstjórn. En umræðan hefur verið mjög staðreyndamiðuð. Við höfum ekki þurft að vera að leiðrétta mikið í henni. Þetta hefur allt komist tiltölulega vel til skila.

En það sem við erum að gera, starfsfólk ráðuneytisins, er að svara fyrirspurnum. Við erum að vinna í því að kynna aðeins betur þau góðu mál sem við höfum verið að vinna í á síðustu árum. Það eru svona viðbrögðin. Auðvitað er þetta óþægilegt, ég ætla ekkert að skorast undan því og segja eitthvað annað. En við verðum samt sem áður að vanda okkur í tilsvörum og nálgast þetta af ákveðinni yfirvegun og ekki að vera að búa til nýjar fréttir, sem eru kannski ekki góðar.

Og svo er annað í þessu: Hér hefur bara gengið nokkuð vel þrátt fyrir að sumum finnist svolítið erfitt að viðurkenna það.