145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

túlkun á fríverslunarsamningi EFTA og Marokkós.

717. mál
[16:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. fyrirspyrjanda.

Þótt málefni Vestur-Sahara landsvæðisins hafi ekki farið hátt í umræðunni á Alþingi eða í samfélaginu almennt, þá er um mjög mikilvægt mál að ræða og ég þakka þingmanninum aftur fyrir að benda á það.

Ég endurtek það sem ég sagði í fyrra svari að utanríkisráðuneytið telur brýnt að alþjóðasamfélagið veiti því alvarlega þrátefli sem er í Vestur-Sahara verðskuldaða athygli. Ég ítreka að Ísland hefur lagt þessu máli lið í málflutningi sínum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Umfram allt er að knýja á um pólitíska lausn sem byggir á sjálfsákvörðunarrétti íbúa Vestur-Sahara og virða þær ályktanir allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem ég fjallaði um í fyrra svari mínu.

Spurning hv. þingmanns var skýr og ég endurtek svar mitt um að Ísland er sammála túlkun stjórnvalda í hinum EFTA-ríkjunum, Sviss og Noregi, um að samningurinn nái ekki til varnings frá Vestur-Sahara. Ég mun einnig fylgjast með þeim athugasemdum og ábendingum sem hv. þingmaður nefndi er varðar útflutning á sjávarfangi (Gripið fram í: Innflutning.) — innflutning, ég þakka fyrir, þ.e. útflutning frá þeim.