145. löggjafarþing — 100. fundur,  18. apr. 2016.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[16:31]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka velferðarnefnd kærlega fyrir gott samstarf og mikla og góða vinnu við breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Ég vil líka fá að nota tækifærið hér og þakka hinum fjölmörgu hagsmunaaðilum sem komu að vinnslu frumvarpsins.

Þetta frumvarp er viðbragð við reynslu af vanda þeirra fjölmörgu húsnæðissamvinnufélaga sem starfa á Íslandi í framhaldi af hruninu. Þetta er viðbragð við því hvernig við getum styrkt stöðu þeirra, komið til móts við ólík sjónarmið, annars vegar búseturéttarhafa og hins vegar félaganna sjálfra. Við höfum lært mikið af því sem hefur gerst á undanförnum árum. Í mínum huga eru húsnæðissamvinnufélögin ein af lykilstoðunum undir öflugum og virkum húsnæðismarkaði. Þessar breytingar munu leiða til þess að mínu mati að húsnæðissamvinnufélögin verða enn öflugri en þau hafa verið og við munum sjá hundraða íbúða byggð í þessu fyrirkomulagi í framhaldi af samþykkt frumvarpsins.