145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Þessa dags gæti orðið minnst sem svarts dags í sögu Reykjanesbæjar. Væntanlega munu menn á bæjarstjórnarfundi kl. 17 í dag hengja upp hvítt handklæði og óska eftir því að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga yfirtaki rekstur sveitarfélagsins.

Þetta gerist þrátt fyrir að tvær síðustu ríkisstjórnir Íslands hafi lofað stuðningi við innviðauppbyggingu í Helguvík eins og gert hefur verið á öðrum sambærilegum stöðum. Nærtækasta dæmið er Húsavík.

Í dag, þegar mest ríður á, stendur enn á efndunum. Fyrir ári var keyrt í gegnum þingið viðbótarframlag til Húsavíkur upp á 2 milljarða vegna vanáætlunar Vegagerðarinnar í gangagerð við hafnarframkvæmdirnar. Á næstu dögum verður lagt fram frumvarp um smíði á nýrri Vestmannaeyjaferju upp á 5 milljarða og verður það væntanlega keyrt í gegnum þingið á nokkrum dögum.

Ég velti fyrir mér loforðum okkar, sex þingmanna og tveggja ráðherra, sem höfum lofað íbúum Reykjanesbæjar að við mundum koma til hjálpar. Mér finnst miður þegar ég heyri þingmenn tala um að verið sé að gera einhverjar víxlareddingar í Reykjanesbæ í þessu alvarlega máli. Mér finnst að við þurfum að biðja íbúa Reykjanesbæjar velvirðingar á fálæti og getuleysi okkar þingmannanna til að aðstoða þá.

Íbúarnir í Reykjanesbæ eiga allt annað skilið en þetta af okkar hálfu.


Efnisorð er vísa í ræðuna