145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Forsetakosningar nálgast og mig langar að minna á mál sem við í Bjartri framtíð lögðum fram sem snýr að því að breyta fyrirkomulagi við forsetakosningar þannig að sá sem er kjörinn forseti verði að hafa meiri hluta gildra atkvæða á bak við sig. Þetta þýðir að annaðhvort þarf að hafa tvær umferðir þannig að tveir efstu fara í seinni umferð og kosið er á milli þeirra, eða það er hægt að nota aðferð sem stjórnlagaráð lagði til og notuð er á Írlandi þar sem er bara ein umferð en það er einhvers konar forval, maður setur númer við þá forsetaframbjóðendur sem manni líst best á. Sú aðferð tryggir eins og hin þar sem eru tvær umferðir að atkvæðin nýtast sem best, þ.e. forseti getur ekki unnið með kannski 20% atkvæða eins og gæti stefnt í.

Mér finnst áhyggjuefni að þingið skuli ekki vera löngu búið að breyta þessu. Það þarf að breyta stjórnarskránni. Við erum í raun bara eitt af fáum löndum þar sem forseti eða þjóðarleiðtogi er kosinn með þessum hætti. Við þekkjum að í Frakklandi til dæmis eru tvær umferðir. Ég vona að sú staða sem er uppi núna verði til þess að gengið verði í þetta mál.

Annað sem við þyrftum líka að skoða er hvort ekki eigi að setja einhver tímamörk á setu forseta eins og er gert í Bandaríkjunum þar sem forseti má ekki sitja lengur en átta ár. Mér finnst raunverulega þurfa að skoða þetta og tilefni til þess núna. Það gerir það enginn nema þeir 63 þingmenn sem sitja hér hverju sinni.

Annað mál sem ég var að reyna að leggja fram einhvern tímann sneri að því að handhafar forsetavalds fengju ekki laun (Forseti hringir.) forsetans þegar hann væri í útlöndum. Því var ekki hægt að koma við vegna þess að það er bundið í stjórnarskrá. (Forseti hringir.) Mér finnst þetta sýna mikilvægi þess að við förum í stjórnarskrárbreytingar, sérstaklega á forsetakaflanum.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna