145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þar sem undirrituð er að stíga í ræðustól í fyrsta sinn frá því að Wintris-málið og Panama-skjölin komu upp langar mig að gera ástandið í samfélaginu að umtalsefni. Eins og við vitum öll ríkir verulega sérkennilegt ástand í íslensku samfélagi um þessar mundir. Við búum við það að þingið er varla starfhæft, nánast ekki með nein mál á dagskrá og þingfundafall eins og varð síðasta föstudag.

Hér lofuðu forustumenn ríkisstjórnar Íslands fólkinu í landinu því fyrir tæpum tveimur vikum að þeir mundu virkja lýðræðið en geta svo alls ekki gefið almenningi svör við því hvenær ganga skal til kosninga og bera því fyrir sig að þar skipti málalisti öllu máli, málalisti sem hvergi hefur komið fram nema í undarlegum skeytaflutningi á milli hæstv. ráðherra Bjarna Benediktssonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar í fjölmiðlum.

Í rúmlega tvær vikur hafa þessir virðulegu herramenn ekki viljað koma fram með dagsetningu á kosningum því að þeir og þeirra fólk þráttar um mál sem ríkisstjórnin ætlar sér að afgreiða. Þetta er í gangi þegar 16 fundadagar eru til þingloka.

Ríkisstjórnin sem hrökklaðist frá völdum var verklausasta ríkisstjórn frá upphafi en þessi nýja gerir alls ekki neitt nema að þrátta um málalista og stefnir kannski þar með óðum í að toppa síðustu ríkisstjórn í verkleysi. En á meðan afkáraleg störukeppni stjórnarflokkana stendur yfir flykkist fólk hingað á Austurvöll og mótmælir ítrekað með friðsamlegum hætti spillingu, leyndarhyggju, hagsmunapólitík og krefst kosninga strax.

Það er líka uppi krafan um endurheimtingu á trausti og trúverðugleika sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar verða að sýna í verki að þeir séu að hlusta á. Það er nefnilega ekki traustvekjandi að láta næstum fjórar vikur líða frá viðtalinu við Sigmund Davíð Gunnlaugsson um þátt hans í Wintris-félaginu og gera ekkert af hálfu ríkisstjórnarinnar til að upplýsa almenning og lágmarka skaðann út á við þegar stjórnmálalegar jarðhræringar og almennt skipbrot Íslands þegar kemur að orðspori og trúverðugleika voru í uppsiglingu.

Það var nefnilega nákvæmlega ekkert gert af hálfu ríkisstjórnarinnar til að undirbúa upplýsandi viðbrögð, enda ákvað hæstv. fjármálaráðherra að flatmaga í sólinni á Flórída. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Það verður að endurheimta traust hér á landi, traust á milli þjóðarinnar og grunnstofnana landsins, (Forseti hringir.) á milli þjóðar og ráðamanna, og endurheimta traust Íslands á alþjóðavettvangi. (Forseti hringir.) Ég trúi því að það sé eitt forgangsmála ríkisstjórnarinnar.