145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í síðustu viku kom fram í fréttum — sú frétt sneri að hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, sem ég ætla að eiga orðastað við, sem sagði aflandsfélagseign forsætisráðherrahjóna til fyrirmyndar og leiðir nú átak gegn skattaskjólum.

Ég vil tala um þetta mál vegna þess að mér finnst gæta ákveðinnar hræsni og ekki trúverðugleiki á ferð þegar hv. þm. Frosti Sigurjónsson á að leiða vinnu um átak gegn skattaskjólum. Við þekkjum það, þingmenn sem tókum þátt í þessari umræðu fyrir fall hæstv. forsætisráðherra, að við vorum gagnrýnd harðlega fyrir málflutning okkar og að við skyldum taka þetta mál til umræðu í þingsal þegar við kölluðum eftir upplýsingum frá hæstv. forsætisráðherra, og stjórnarliðar brugðust hart við.

Ég ætla að vitna í hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, með leyfi forseta:

„Undanfarna daga hafa nokkrir þingmenn reynt að gera eignir maka forsætisráðherra tortryggilegar í þeirri von að grafa undan trausti á pólitískum mótherja.

Lágkúran gæti vart verið meiri. Ýjað er að því að hér sé ólöglegt að eiga eignir erlendis. Það er bara alveg löglegt. Það er líka fullkomlega löglegt að eiga eignir í erlendum aflandseyjum, Bresku Jómfrúreyjunum ef því er að skipta,“ sagði Frosti. Þá sagði hann liggja fyrir hvernig eignirnar væru til komnar og að allir skattar hafi verið greiddir af þeim og það væri það sem skipti máli.

Já, löglegt en siðlaust. Það er nefnilega stóra málið að það virðist ekkert hafa breyst í huga þessara hv. þingmanna, stjórnarliða. Mönnum finnst það vera allt í lagi. Menn hafi bara verið nappaðir og bara æ, æ. Nú á hv. þingmaður að leiða verkefni gegn skattaskjólastarfsemi. Ég bara spyr um trúverðugleika samstarfsmanns fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra sem hefur talað með þessum hætti; að menn geti bara skipt algjörlega um forrit og telji sig tilbúna til (Forseti hringir.) að leiða þessa vinnu. Mér finnst það bara ekkert í lagi. Ég tel að aðrir eigi að leiða þessa vinnu sökum þess sem á undan er gengið. (Forseti hringir.) Ég bendi á tillögu Vinstri grænna um rannsókn á þessum málum, að hún fari fram opinberlega.


Efnisorð er vísa í ræðuna