145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ísland er kraftmikið samfélag og þegar tekst að ná fram samtakamætti þjóðarinnar er ótrúlegt hvað við afrekum. Þetta gerðist við stofnun lýðveldisins, útfærslu landhelginnar, þetta sáum við í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Alþingi er mikilvægur þáttur af íslensku samfélagi, íslenskri stjórnskipan. Þetta er löggjafarvaldið á Íslandi og við höfum séð að Alþingi getur unnið vel saman. Hér voru neyðarlögin sett sem voru upphafið að endurreisn landsins eftir hrunið. Fyrir skemmstu samþykktum við ný náttúruverndarlög í breiðri sátt. Við eigum von á nýjum útlendingalögum inn í þingið sem hafa verið unnin í breiðri sátt. Þetta er hægt.

Mér varð hugsað til þess í gær þegar hæstv. fjármálaráðherra svo gott sem hvæsti á þingið að það kæmi stjórnarandstöðunni ekki við hvenær yrði kosið í haust. Ný ríkisstjórn hefur séð ástæðu til þess að tilkynna að kjósa eigi í haust en alla vega ekki enn þá ákveðið að tilkynna okkur hvenær kjördagur verður.

Þetta „ég á þetta, ég má þetta“-hugarfar veldur mér hugarangri vegna þess að það er merki um að völdin skipti meira máli en heildin. Íslenskt samfélag er í sárum eftir það sem hefur gerst og komið fram síðustu vikur. Það er ekki tími valdsmannsins og þess sem á heldur tími almennings alls, þjóðarhags. Þess vegna segi ég að (Forseti hringir.) við á Alþingi verðum að sjá kjördag, við verðum að sjá þessa mikilvægu málaskrá sem ríkisstjórnin þarf að leggja fram því að þangað til er þetta Alþingi verklaust og engum til gagns.