145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er ekki ofsögum sagt að það þarf að halda áfram að tala um atburði undanfarinna daga og tíðindi gærdagsins sem fólust í því að núverandi forseti landsins ákvað að gefa áfram kost á sér. Nokkuð óttablandinn fannst mér nú vera sá rökstuðningur sem notaður var til þess að réttlæta áframhaldandi setu til 24 ára.

Við erum hins vegar með þing þar sem enn sitja tveir ráðherrar sem koma við sögu í svokölluðum Panama-skjölum. Þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hafi sett eitthvað á blað varðandi fjárfestingu sína í Falson & Co. er það engan veginn ásættanlegt vegna þess að þar kemur ekki fram hvort ársreikningum eða öðru hafi verið skilað.

Björn Þórarinsson lagaprófessor taldi svo, þegar þetta allt saman átti sér stað, þ.e. þegar þingrofi var neitað, að forseti Íslands hefði tekið að sér að vera gæslumaður ríkisstjórnarinnar. Það lítur eiginlega svolítið þannig út núna þegar nýjustu tíðindi eru skoðuð. Meira að segja í ofanálag var forseti þjóðþings okkar boðaður á fund forseta Íslands án þess að hafa hugmynd um til hvers væri ætlast af honum á slíkum fundi enda hefur það ekki verið alvanalegt.

Það eru fleiri sem hafa haft skoðun á þeim ástæðum sem forseti Íslands gefur til þess að halda áfram störfum. Mig langar að vitna í hádegisfréttir hjá RÚV þar sem var viðtal við Ragnhildi Helgadóttur þar sem hún segir m.a., með leyfi forseta:

„Það sem hefur gerst er allt saman eðlileg og lögleg viðbrögð við aðstæðum sem koma upp. Við þeim aðstæðum að það sé ekki lengur traust eða nauðsynlegt sé talið að flýta kosningum. Og þetta er allt í samræmi við reglur. Og ég held að við þurfum að muna þarna, að festa í stjórnskipuninni, hún á að vera í regluverkinu, ekki því að það séu sömu einstaklingarnir.“ (Forseti hringir.)

Þetta snýst sem sagt ekki um forseta Íslands og persónu hans vegna þess að miðað við það sem hann segir þurfa helst allir að hafa verið forsetar til þess að geta sinnt því sem þarf að sinna. Þetta snýst um regluverkið og það þurfum við að muna.