145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

viðbrögð stjórnvalda við skattaskjólum.

[14:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að ræða þessi mál í þinginu og tek undir með hv. þingmanni um að þingið verður að sjálfsögðu að bregðast við því ákalli sem er skýrt um að stjórnvöld taki alvarlega þeim vanda sem um er að ræða, skattsvikunum, og hyggist bregðast við. Hér er lagt upp með þá spurningu hvað íslensk stjórnvöld hafi gert eða hyggist gera.

Það er mikilvægt að halda því til haga sem gert hefur verið nú þegar. Minnst var á OECD-staðalinn. Við erum meðal þeirra þjóða sem undirrituðu hann fyrst allra og verðum í hópi þeirra þjóða sem innleiðum hann fyrst allra í svokallaðri, á enskunni, Early Adopters Group.

Við höfum gert upplýsingaskiptasamninga, síðast í London 12. þessa mánaðar sem byggir á samstarfi Norðurlandanna um gerð slíkra samninga. Við höfum einnig tekið þátt í BEPS-áætluninni sem vísað var til þar sem áherslan er á að breyta reglum um milliverðlagningu og herða þær, lögfesta reglur um þunna eiginfjármögnun og uppfæra CFC-reglurnar sem jafnframt var vísað til.

Fyrr í þessum mánuði, 13. apríl, tóku fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins þátt í fundi í París á vegum vinnuhóps OECD, svokallaðs JITSIC-hóps, og þar voru teknar ákvarðanir um framhald þess samstarfs. Í fyrsta lagi verður útfærð sameiginleg aðgerðaáætlun þar sem verkefnið er að samstilla aðgerðir ríkjanna varðandi enn frekari upplýsingaöflun og í öðru lagi að vinna þétt saman með það að markmiði að hámarka þann ávinning sem fæst af samstarfinu og breyta eða beita gildandi löggjöf einstakra aðildarríkja til hins ýtrasta til að vinna að því markmiði. Það verður einnig skoðað að fara nýjar leiðir og brjóta upp vinnuhópana í smærri einingar til að vinnan geti gengið hraðar fyrir sig.

Loks var það áberandi á fundinum fyrr í þessum mánuði á vettvangi OECD að margir fundarmanna töldu vera ávinning í því að fara þá leið sem starfshópur lagði til á sínum tíma á Íslandi, starfshópur sem ég kom á laggirnar, þar sem ríkisskattstjóri, skattrannsóknarstjóri og fleiri aðilar úr stjórnkerfinu lögðu til frumvarp sem ég lagði á endanum inn til efnahags- og viðskiptanefndar.

Á þessu kjörtímabili höfum við verið mjög virk. Við höfum gengið frá aðild okkar að OECD-staðlinum. Við kláruðum nýverið fleiri upplýsingaskiptasamninga. Við höfum keypt gögnin sem skattrannsóknarstjóri hefur haft til meðferðar sem var einstök aðgerð. Það hefur vakið mikla athygli á alþjóðlegum vettvangi að Íslendingar skyldu hafa stigið það skref langt á undan mörgum öðrum. Þessi gögn eru til staðar og munu gagnast í vinnunni fram undan.

Frá því að þessi gögn komu úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu höfum við haft samband við helstu stofnanir á þessu sviði, boðið fram frekari stuðning og kallað eftir ábendingum um hvaðeina sem við getum gert á sviði löggjafar eða stjórnsýslu til að styðja frekar við rannsókn þessara mála og til að ná betur í höfn þeim markmiðum sem við höfum sameiginlega sett okkur, að uppræta skattsvik og þola þau ekki í íslensku samfélagi.

Þessi umræða er víðfeðm. Það hefur ekki farið mikið fyrir umræðunni um það á Íslandi að aflandsfélögin koma mjög víða við sögu. Það er til dæmis alveg öruggt að lífeyrissjóðum landsmanna er að einhverju marki varið í fjárfestingar sjóða sem eru skrásettir á lágskattasvæðum, svokölluðum aflandssvæðum. Það er nokkuð víst. Alþjóðlegir bankar eru vanir að setja upp sjóði sem eru markaðssettir fyrir lífeyriskerfin í hinum ýmsu löndum og eru á endanum skrásettir á svona svæðum.

Þannig eru margir lífeyrisþegar á Íslandi óbeinir eigendur að sparnaði sem er vistaður í þessu umhverfi. Hér er vakin athygli á því að það gæti verið sjálfstæður skaði af samkeppninni sem þessi svæði veita öðrum löndum, eins og Evrópusambandslöndunum. Það er alveg rétt en ég held að við ættum fyrst og fremst að beina sjónum að svikahröppunum, að því að ná í upplýsingarnar, uppræta leyndina og koma í veg fyrir skattsvikin. Síðan getum við dýpkað umræðuna og velt fyrir okkur hvernig Ísland getur staðsett sig í samfélagi þjóða þannig að við getum stundað heilbrigða samkeppni á heilbrigðum forsendum vegna þess að það er (Forseti hringir.) enginn að tala fyrir því í raun og veru að útiloka samkeppni ríkja í milli í tilefni af þeim upplýsingum sem hafa komið fram á aflandssvæðum þó að þau geti í vissum tilvikum verið skaðleg í sjálfu sér. Við höfum tekið til baka verulegan hluta ávinningsins af því að koma þessu þar fyrir með CFC-löggjöfinni.