145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

viðbrögð stjórnvalda við skattaskjólum.

[14:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er ekki mjög flókið. Við eigum einfaldlega að banna það að menn geymi fjármuni sína á þessum stöðum. Stjórnarráðið hefur fram að þessu haft efasemdir um að við gætum það vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, en nú er það yfirlýst af ESA að ekkert komi í veg fyrir að við bönnum þetta einfaldlega í okkar lögum. Það eigum við að gera. En við eigum líka að kosta kapps að ná öllum þeim upplýsingum sem við getum um þá sem hafa skotið sér undan sköttum og skyldum. Meðal annars eigum við náttúrlega að ná í þær upplýsingar inn í bankana okkar af því að það er bara þannig að upplýsingar um það hverjir sendu peninga út á þessar eyjar er að finna í bönkum okkar hér heima. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hann ætli ekki að beita sér fyrir því að menn sæki þær upplýsingar inn í bankakerfið.

Ég hlýt líka að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort honum finnist eðlilegt að hann sé í fyrirsvari fyrir þetta mál eftir það sem á undan er gengið. Hvort hann telji að það sé trúverðugt að hann standi í ræðustól Alþingis Íslendinga sem fjármála- og efnahagsráðherra og yfirmaður skatteftirlits í þessum málefnum eftir að upplýsingar sem hann sjálfan vörðuðu lágu ekki fyrir við síðustu alþingiskosningar og hvort hann sjái það ekki, sem augljóst má vera hverjum manni eftir það sem upp hefur komið í þessum málum, að óhjákvæmilegt er að rjúfa þing og ganga til kosninga þegar í stað þannig að þeir sem hér starfa geti sótt sér umboð og þann trúnað sem fyrirsvarsmenn í þessum málefnum þurfa að hafa beint frá kjósendum.