145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

viðbrögð stjórnvalda við skattaskjólum.

[14:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Skattalöggjöfin á að vera réttlát og ekki of íþyngjandi og síðan á fólk að greiða skatta á Íslandi ef það býr hér. Þetta á ekki að vera flókið. Þetta blasir við. Ég ætla ekki að gera neinum upp aðrar skoðanir í þessum efnum, en hins vegar verður ekki fram hjá því litið að maður hefur ríka ástæðu til að tortryggja stjórnarflokkana þegar kemur að þessum einföldu málum.

Í aðdraganda hrunsins var talað þannig, af hálfu stjórnarflokkanna, sem þá fóru með völdin á Íslandi, að hér væri bara einhvers konar partí. Svona hátterni var talað upp, að fara með auðinn til útlanda í aflandsfélög. Menn drógu lappirnar í því að setja nauðsynlega regluumgjörð og lagaumgjörð um þessa starfsemi alla til þess að reyna að tryggja að sköttum væri skilað. Það er ein ástæða tortryggninnar. Ég held að það sé hollt fyrir stjórnarflokkana að horfast í augu við þetta.

Svo er það sem hefur gerst á undanförnum vikum. Hvað gerðist hérna? Í fyrsta lagi þarf hæstv. fjármálaráðherra að útskýra kirfilega að allt sé á hreinu í hans málum áður en hann nýtur fulls trausts til þess að fara með þessi mál fyrir hönd þjóðarinnar. Svo er það hitt að þáverandi forsætisráðherra varð uppvís að því að geyma fjölskylduauð sinn í aflandsfélagi, í skattaskjóli. Af því tilefni voru aðrir þingmenn kallaðir þingmenn lágkúrunnar vegna þess að þeir vildu vekja máls á þessu, hvort þetta væri virkilega í lagi.

Hæstv. forseti leit svo á að það þyrfti ekki að ræða þetta hér í þingsal. Núverandi forsætisráðherra sagði þóttafullur að einhvers staðar þyrftu peningarnir að vera og að það væri flókið að eiga peninga á Íslandi. Öll þessi ummæli, sem voru þýdd á heimsins tungumál, eru auðvitað þannig að það er mjög eðlilegt (Forseti hringir.) að maður standi hérna og tortryggi það alveg frá dýpstu sálarrótum og spyrji hvort núverandi stjórnarflokkar telji þetta aðkallandi verkefni og á einhvern hátt alvarlegt (Forseti hringir.) að takast á við það að sumir vilja geyma peninginn sinn í skattaskjólum þar sem mjög auðvelt er að komast undan því að borga skatta.