145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

viðbrögð stjórnvalda við skattaskjólum.

[14:23]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um viðbrögð stjórnvalda við skattaskjólum og þær upplýsingar sem hér hafa þegar komið fram. Að mínu mati á Ísland að vera í fremstu röð ríkja í baráttunni gegn starfsemi skattaskjóla. Ekki síst í ljósi þess hve Ísland kemur víða við sögu í gögnum Mossack Fonseca. Leyndin sem skattaskjól bjóða fyrirtækjum upp á hefur verið misnotuð í margvíslegum tilgangi, t.d. til þess að komast hjá skatti, til að sneiða hjá reglum á fjármálamarkaði um flöggunar- og yfirtökuskyldu, til að falsa eigið fé fjármálastofnana og til að fela illa fengið fé.

Fjölþjóðleg fyrirtæki hafa notfært sér skattaskjól til að færa hagnað frá þeim ríkjum þar sem hin raunverulega starfsemi á sér stað til lágskattasvæða og þannig forðast að greiða skatta til samfélagsins.

Undanskot frá sköttum grafa undan velferð og jöfnuði í samfélaginu og því ætti það að vera forgangsmál stjórnvalda á öllum tímum, ekki síst í ljósi nýfenginna upplýsinga um umfang vandans, að berjast gegn starfsemi skattaskjóla.

Efnahags- og viðskiptanefnd hefur kallað til fundar við sig fulltrúa frá ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, Fjármálaeftirliti og Seðlabanka. Þessir fundir hafa verið opnir fjölmiðlum og þingmenn hafa fengið tækifæri til þess að spyrja spurninga, kynnast því hvaða sjónarmið þessar stofnanir eða talsmenn þeirra hafa til málsins og hvaða tækifæri eru til að gera lagabreytingar.

Nefndin hefur einnig fengið til sín fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og hefur boðið Samtökum fjármálafyrirtækja atvinnulífsins og endurskoðenda að senda sér minnisblöð um málefnið. Fundirnir og minnisblöðin hafa nýst til þess að upplýsa nefndarmenn um umfang vandans og hvaða úrræði mætti skoða nánar til að sporna við honum.

Sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar tel ég afar mikilvægt að nefndin haldi áfram að afla sér þekkingar á vandanum og mögulegum úrræðum. Ég tel víst að nefndarmenn muni vera fúsir til að vinna hratt að stjórnarfrumvörpum sem miða að því að (Forseti hringir.) hindra starfsemi skattaskjóla og jafnvel að nefndarmenn og nefndin hafi frumkvæði að því að flytja slík mál.