145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

svör við fyrirspurnum.

[14:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér finnst ég verða að nota tækifærið og kvarta undan því að hafa núna beðið í hálft ár eftir svari við frekar einfaldri og sjálfsagðri fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðuneytis.

Í stuttri ræðu sem hæstv. fjármálaráðherra hélt í gær um dugnað þessarar ríkisstjórnar við að svara fullyrti hann, samkvæmt mínum skilningi, að þessi ríkisstjórn hefði svarað fleiri fyrirspurnum en sú síðasta.

Ég tók saman tölur og tók saman skjöl sem eru merkt með tegundinni svar frá síðasta kjörtímabili og til 18. apríl 2012. 18. apríl 2012 voru 778 skjöl merkt sem svar en voru í gær og eru í dag 769. Svarfjöldinn er því sambærilegur en aðeins minni núna en var á sama tíma á síðasta kjörtímabili.

Mig langaði að halda því til haga fyrst menn nefndu staðreyndir í þessu samhengi.


Tengd mál