145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:10]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ríkisfjármálunum eins og hv. þingmaður veit mætavel er alltaf verið að togast á hvert við viljum stefna og hvert við viljum fara í tilteknum málum. Við höfum líka verið að forgangsraða töluvert mikið í þágu velferðarmála í ríkisstjórninni. Sem betur fer höfum við líka verið að setja aukið fjármagn í kjarasamninga sem við fögnum öll og erum ánægð með. Við sem erum áhugamenn um samgöngumál getum ekki sagt að við getum fengið allt sem við viljum og það veit hv. þm. Kristján Möller, fyrrum samgönguráðherra, mætavel. Þótt hann hafi verið stoltur af áætlunum sínum, þá er það alltaf svoleiðis að í þessum málaflokki erum við að tala um 13.000 kílómetra af vegum, það er óskaplega erfitt að leggja fram áætlun sem allir eru ánægðir með, það liggur alveg fyrir.

Varðandi spurningarnar þá hefur það verið mín skoðun, það er nú kannski þess vegna sem þetta kemur svona óskaplega seint fram, að samgönguáætlun þurfi að vera í tengslum við raunveruleika ríkisfjármálanna. Mér finnst því ekkert gott fyrir samgönguráðherra hvers tíma að vera með samgönguáætlun, sem er stefnumótandi plagg, og þegar hann er búinn að fjalla um hana og er ánægður með hana þá kemur að fjárlagagerð og þá kemur einhver allt annar raunveruleiki í ljós eins og við þekkjum. Ég hef viljað forðast það. Þess vegna er þessi samgönguáætlun aðlöguð að þeim raunveruleika sem maður sér fyrir sér að geti orðið.

Vegna orða hv. þingmanns um áætlunina síðasta vor þá finnst mér líka að þingið, sem hefur fjárveitingavaldið, þurfi að tryggja fjármunina sem eiga að fylgja með ef það ætlar að gera breytingar á samgönguáætlun. Það er ekkert gagn að samgönguáætlun þar sem öllu fögru er lofað ef fjármunirnir fást ekki í fjárlagagerðinni. Þetta er samhengi hlutanna. Þarna viðurkenni ég, hv. þm. Kristján Möller og hæstv. forseti, (Forseti hringir.) að bjartsýnin bar mig ofurliði þegar ég hélt að það væri raunverulega hægt að ná þessum árangri. Ég held að það sé ekki hægt, þess vegna erum við meira að fara í þessa stefnumarkandi átt.