145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:12]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar og skil hana mætavel. Þingsályktunartillaga um samgönguáætlun er staðfest af ríkisstjórn og þar með ákveðið að stoðum verði skotið undir hana í fjárlögum hvers árs. Þetta er stefnumótandi áætlun fram í tímann. Nú eru menn farnir að gera áætlun til lengri tíma. Ég verð að segja eins og er að það litla sem er í áætluninni tekur mið af því sem ríkisstjórnin hefur ákveðið, ég trúi því þess vegna ekki að þingmenn stjórnarflokkanna ætli að samþykkja hana eins og hún er.

Ég tek eitt dæmi vegna þess að þingmenn ræða auðvitað um sín svæði, svæði sem þeir þekkja best: Árið 2017 eru á svokölluðu norðursvæði veittar 200 millj. kr. á allt það landflæmi. Árið 2018 eru það 150 millj. kr. Hér sitja nokkrir þingmenn Norðausturkjördæmis og meðal annars úr stjórnarflokkunum, þar á meðal (Forseti hringir.) hv. 1. þm. Norðaust. sem nú er; og ég held að hann verði lengi hjá okkur. Ég spyr hann: Er hann ánægður með þetta? Ég segi fyrir mitt leyti og segi við ráðherra: Þetta er algjörlega óásættanlegt.

Stefnumörkun um að veita 1 milljarð (Forseti hringir.) í almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu var skilyrt á þann veg að draga mundi úr framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu. En sú er ekki raunin. Mestu framkvæmdirnar verða eftir sem áður á höfuðborgarsvæðinu.