145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:14]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður alltaf þannig að við förum aðeins að togast á milli landshluta í þessu. Við þurfum þá að hliðra til ef við ætlum að gera breytingar. Ég legg tillöguna fram með það til hliðsjónar hvaða fjármuni ég held að ég fái í verkið. Þannig er það náttúrlega. Það er svarið við spurningunni. Þess vegna er áætlunin kannski ekki eins útbólgin og hún væri af því að ég sjálf hef ekki endilega trú á því að það muni birtast í fjárlagagerðinni. (Gripið fram í.) Þannig er það og þetta eru ekkert ný sannindi, þetta eru gömul sannindi og ný, eins og sagt er.

Ég verð reyndar að leiðrétta eitt, virðulegi forseti: Ég sagði að það væru 13.000 km af vegum í landinu. Ekki gleyma því, ágætu þingmenn Norðausturkjördæmis, sem ég var nú einu sinni hluti af, að þar eru töluverðar jarðgangaframkvæmdir í gangi, töluvert fé hefur farið þangað þó að ég geti alveg skilið að menn vilji fá meira í sín héruð.

Við erum alltaf að togast á um það hvert fjármunirnir eigi að fara. (Forseti hringir.) Það verður að setja fram forgangsröðun. Þetta er sú forgangsröðun sem hér er lögð til. Ég skora á þingið því að ég er viss um að menn vilji fá aukið fé til samgöngumála: Gerum það þannig að við getum staðið undir því.