145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:22]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er að verða svolítil norðausturumræða. Mig langaði að ræða aðeins við ráðherra um nokkur atriði í samgönguáætlun, sem er allt of seint fram komin. Þótt maður fagni því að sjálfsögðu þegar hún kemur fram eru, eins og hefur komið fram, ekki nægir fjármunir sem fylgja henni. Það er forgangsatriði. Sveitarstjórnarfólk víða um land, eins og hæstv. ráðherra þekkir og hefur væntanlega fengið inn á borð til sín líka, kallar mikið eftir því að þetta sé eitt af stóru forgangsmálunum, heilbrigðismál og samgöngumál.

Mig langar að spyrja ráðherrann. Nú hefur bensín eða olíuverð lækkað töluvert. Hefði ekki mátt ýta mörkuðu tekjunum eitthvað upp á þeim grundvelli, þ.e. án verðhækkana fyrir neytendur og ríkissjóð? Hvað telur hún í því sambandi? Það sem maður sér hér er að þessi hlutdeild í vegamálunum dugir varla nema rétt til að halda í við verðlag, sýnist mér, það sem hér er boðað. Mig langar að spyrja hana um það.

Í andsvari þegar samgönguáætlun var lögð fram síðast og við ræddum hana var spurt um fjármunina, m.a. mörkuðu tekjurnar og annað. Þá sagði ráðherra að hún hefði ákveðið af þessu tilefni, þ.e. hversu fjárframlögin hefðu rýrnað til Vegagerðarinnar á grundvelli skiptingarinnar, að setja af stað vinnu við þetta tiltekna atriði og það yrði ekki gert á vegum innanríkisráðuneytisins eins og sér heldur þyrfti að koma til samstarfs við fjárveitingavaldið. Ég spyr: Var þetta gert? Ef svo er, hvar er vinnan stödd núna? Ég tel mjög mikilvægt að við hugum að mörkuðu tekjustofnunum sem Vegagerðin hefur til umráða.