145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:27]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Ég get alveg tekið undir að áætlanir í innviðum okkar eiga að vera til mjög langs tíma. Þegar við tölum um auðlindir okkar eða náttúruna eða annað tel ég mjög skynsamlegt að við hugsum til langs tíma. Það sama á við um þjóðvegakerfið, sem tengir okkur saman úti um allt land. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það væri mjög skynsamlegt. Við þekkjum aðstæður sem víða má bæta, hvort sem þarf að tvöfalda eða eitthvað annað og meira að segja burt séð frá ferðamönnunum. Ég tek undir það.

Nú stöndum við frammi fyrir því að það er neikvætt bundið eigið fé á höfuðstól Vegagerðarinnar. Hæstv. ráðherra vitnaði í nýju lögin um opinberar fjárreiður og mig langar að spyrja hana hvort það sé eitthvað sem verður fellt niður og dregið saman, sambærilega, miðað við það.

Svo er ein pínulítil hérna í restina. Á bls. 51 kemur fram varðandi viðbót í fjárlögum fyrir árið 2016 (Forseti hringir.) að til athugunar sé að skoða lagfæringar á vegi vegna færslu (Forseti hringir.) á skíðasvæði á Siglufirði. Mig langar að vita hvað þarf til, af því að hér eru lagfæringar á Tindastólsvegi, (Forseti hringir.) eða er eitthvað vitað um það?