145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:30]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að bregða út af þeirri venju að taka til máls þegar samgönguáætlun er lögð fram og fjalla um hana.

Það sem kom fram í stuttu andsvari mínu áðan, í þeim tón sem ég talaði þar, var óánægja, áhyggjur af því hversu lítið fé er veitt til samgöngumála yfir höfuð í þessari samgönguáætlun.

Það er vissulega rétt að það var mikið gert og hefur mikið verið gert. Ég hef áður sagt að ég held að við höfum slegið Íslandsmet á hrunárinu og árin þar á eftir í samgönguframkvæmdum. Það var að vísu gott fyrir þann samgönguráðherra sem þá var, sem hér stendur nú, að hafa stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins að leiðarljósi þar sem mjög var hvatt til þess að gefa í m.a. í samgönguframkvæmdum til að efla atvinnu í landinu og skapa vinnu og verk fyrir verktaka, sem fóru þó margir úr landi og náðu sér í verkefni annars staðar. Við sjáum í dag hvað það eru fáir verktakar sem bjóða í verk, samkeppnin er minni.

Allt voru þetta góð verk sem unnin voru, sem voru m.a. til að skapa nútímaveg til byggðarlaga. Ég get tekið sem dæmi Vopnafjörð, Hófaskarðsleiðina á norðausturhorninu, veginn til Raufarhafnar eða jarðgangaframkvæmdir sem heldur betur hafa skilað árangri hvað það varðar, sem er alltaf tilgangurinn, annars vegar að auka umferðaröryggið og hins vegar að styrkja innviði viðkomandi byggðarlaga.

Ég segi oft, og held að ég sé ekki neitt að grobba sem Siglfirðingur eða fyrrverandi samgönguráðherra í því, að nægjanlegt sé að líta til byggðanna sem nú mynda Fjallabyggð, Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, til að sjá hvers konar viðsnúningur varð í framhaldi af því að Héðinsfjarðargöng voru opnuð í október 2010. Það hefur orðið algjör viðsnúningur og ég hef stundum sagt að ég held að það skipti sköpum fyrir vöxt og viðgang þessara sveitarfélaga og sama mætti segja um mörg önnur sveitarfélög. Það má taka sem dæmi að menn þora núna að keyra frá Ísafirði til Bolungarvíkur um Bolungarvíkurgöng þar sem þeir þorðu ekki um Óshlíð og ýmsa aðra vegi sem fólki datt ekki í hug að fara á, sem voru lélegir malarkaflar.

Þá kemur að því hversu mikið fé á að veita til samgönguframkvæmda. Að mínu mati er það sem hér er inni allt of lítið, þótt það sé hárrétt sem ráðherra sagði að kjördæmin takast á um hvernig eigi að skipta fjárveitingum. Það er sannarlega rétt.

Sú aðgerð sem farið var í í tíð síðustu ríkisstjórnar, að veita 1 milljarð á ári með samningi til tíu ára til að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, var mjög gott verk. Ég held að við sjáum algjörlega í dag að það hefur skilað árangri. Fólk notar almenningssamgöngur meira, sem ekki var vanþörf á. En með því fylgdi að menn ætluðu þá ekki að vera í miklum og stórum framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma.

Ég held mig við vegarkaflann í þessari tíu mínútna ræðu vegna þess að það er eins með okkur þingmenn og hæstv. ráðherra að þetta er ótrúlega stuttur tími. Ég hugleiddi að biðja um tvöfaldan tíma til að ræða málið en hætti við það. Ég taldi enga þörf á því að eyða lengri tíma í að ræða það við fyrri umr. vegna þess hversu lítið er lagt í.

Á suðursvæði og því sem kallað er suðursvæði II, Reykjavík og suðvesturhornið, er meginhluti framkvæmda eða tæpir 3 milljarðar á árinu 2017 og einir 3 eða 4 milljarðar árið 2018. Á sama tíma eru einungis 200 millj. kr. á norðursvæðinu, og ég vek athygli á því að það er svolítið breytt uppsetning á þessu núna, og þar af eru 50 millj. kr. í hefðbundinn undirbúning verka utan áætlunar, sem Vegagerðin hefur til að gera kannanir um vegarstæði, rannsóknir og annað slíkt, 100 millj. kr. í öryggisaðgerðir á Akureyri, væntanlega til að breyta umferðarljósum sem varla sjást og gera þau stærri og sýnilegri, og svo 50 millj. kr. í Jökulsá á Fjöllum og Skjálfandafljót. 200 millj. kr. samtals. Árið á eftir, þ.e. árið 2018, lækkar það í 150 millj. kr.

Virðulegi forseti. Til að setja þetta í samhengi held ég að það dugi til að leggja 1,5–1,6 km af nýjum vegi á þessu ári. Það er allt og sumt.

Þar eru mörg verkefni sem bíða, eins og annars staðar, og sama má segja um austursvæðið, ef ég leyfi mér að halda mig við að tala um það svæði sem ég þekki best. Þar er þó aðeins meira fé veitt eða 1.430 millj. kr. 2017 og 1.820 árið 2018.

Ég geri það stundum að ræða um annað og ég get alveg farið yfir á vestursvæðið, á Vestfirðina, vegna þess að ég er sammála þeirri áherslu sem hér kemur fram, það er sannarlega þörf á að koma þar inn af miklu meiri krafti en hefur verið gert hingað til. Ég segi það hins vegar að í þeim samgönguáætlunum sem ég stóð að stóð ekki á fjárveitingum til þess svæðis. Framkvæmdirnar í Gufudalssveit, við þekkjum þá sorgarsögu. Það var kært og tapaðist málið í Hæstarétti vegna þess að þáverandi umhverfisráðherra, sem úrskurðaði í málinu, mátti ekki taka tillit til umferðaröryggis. Þegar ég las þann dóm var það það eina sem felldi það mál. Það voru ekki vatnaskiptin í Gufufirði eða Djúpafirði, nei, það var ekki það eða framkvæmdin sem slík heldur þetta atriði.

Nú hefur þessu mikið verið breytt og er í formlegu ferli og vonandi lýkur því á þann hátt að Vegagerðin fær leyfi til að hefja framkvæmdir, ekki í gegnum Teigsskóg heldur ofan við hann, og eftir þeim formúlum sem búið er að setja inn svo að það verði lágmarksrask á svæðinu, með öðrum orðum að allt efni verði keyrt að en ekki tekið á þessu viðkvæma svæði.

Sem betur fer er veitt fé í þetta árið 2017 og 2018 og vonandi verður þá búið að koma því í gegn og komið leyfi til þess.

Það mætti tala um margt fleira á Vestfjörðum hvað þetta varðar. Hér eru áætlanir settar inn til að mynda um nauðsynlega framkvæmd á Dynjandisheiði. Ef menn ætla að fara í Dýrafjarðargöng, og komið hefur fram að framkvæmdir eiga að hefjast árið 2017, og vinna hálft árið þar er auðvitað nauðsynlegt að byggja upp Dynjandisheiði vegna þess að ef hún er ófær er ófært að göngunum í nokkra mánuði á ári, það gætu verið fimm mánuðir og enginn keyrir þá um.

Þarna er talað um að sú framkvæmd kosti 4,5 milljarða en einungis 850 millj. kr. varið í það árin 2017 og 2018.

Við sjáum miðað við þessa yfirferð, ásamt því sem ég get nefnt úr kjördæmi mínu, ýmsar framkvæmdir þar, að þetta er allt of lítið.

Virðulegi forseti. Það er hluti af vandamálinu að markaður tekjustofn Vegagerðarinnar hefur ekki haldið í við verðlagsþróun. Ég las skýrslu Vegagerðarinnar og hvet þingmenn til að kynna sér þau gögn vegna þess að þau eru frábær, ársskýrsla Vegagerðarinnar fyrir hvert og eitt ár. Ég er með skýrsluna frá 2014 og þar er talað um að ef tekjustofnarnir hefðu haldið eða verðlagshækkanir á bensíni og olíu hækkað í takt við það sem átti að vera væri ekki verið að veita 15 milljarða kr. árið 2014 heldur 21 milljarð. Það vantaði 6 milljarða upp á.

Það skýtur svolítið skökku við að þegar við höfum hækkað álögur á bensín og eldsneyti hafa fjármálaráðherrar yfirleitt gert það þannig að það er eingöngu á þeim hluta gjaldsins sem rennur beint í ríkissjóð en ekki á þeim sem á að viðhalda eða byggja upp vegakerfi landsins. Þetta er hlutur sem við stöndum frammi fyrir og verðum að fara að átta okkur á. Ég segi fyrir mitt leyti, virðulegi forseti, að undanfarið, miðað við 75% lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu sem er einn af stærstu þáttunum í efnahagsbata á Íslandi ásamt fjölgun ferðamanna, hefði verið svigrúm til að láta Vegagerðina fá meira út úr bensín- og olíugjaldi en hún fær í dag. Þá hefðum við, ég og hæstv. ráðherra, verið ánægð með að hafa úr meira fé að spila til að setja í brýn verkefni vítt og breitt um landið. Það er alveg sama hvort það eru nýframkvæmdir á ákveðnum svæðum, til þess að koma vegagerð í takt við árið 2016 en ekki 1950 eða 1960, vetrarviðhald sem hefur aukist vegna þess að snjór er minni og miklu meiri hálka, plús viðhald á vegum, sem sannarlega minnkaði á hrunárunum vegna þess að við vorum meira í nýframkvæmdum, eða aukið slit með stórauknum fjölda ferðamanna og meiri umferð um vegi landsins.

Virðulegi forseti. Alls staðar komum við að því að það vantar meira fé inn. Þetta hefði verið skjótvirkasta leiðin að mínu mati og ef ekki hefði verið svigrúm eftir þá miklu heimsmarkaðslækkun á olíuverði sem er í dag — (Forseti hringir.) sem er enn verið að staðfesta, sem betur fer koma olíuríkin hjá OPEC sér ekki saman um framleiðslutakmörkun þannig að ég held að við munum áfram búa við lágt orkuverð, þess vegna er tækifærið til að gefa í og láta Vegagerðina fá meira. (Forseti hringir.) Þarna er ég að benda hæstv. ráðherra á leið til að fá meira fjármagn til vegagerðar og samgöngumála.