145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:45]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018. Mig langaði í stuttri ræðu að fara örlítið yfir nokkur atriði, en ég vil byrja á að lýsa ánægju minni yfir að samgönguáætlun sé komin fram og fari til efnislegrar meðferðar í þinginu.

Ég ætla að fara í stuttu máli yfir þær framkvæmdir er snúa að því kjördæmi sem ég vinn í og ræða þær aðeins. Einnig ætla ég að koma inn á framkvæmdir við Sundabraut sem fjallað er örlítið um í þessari tillögu og um Kjalarnes ef tími gefst til. Þrátt fyrir að hvorki Sundabraut né Kjalarnes séu innan Norðvesturkjördæmis sýna nýlegar tölur að umferð frá Akranesi og nærliggjandi sveitarfélögum um Hvalfjarðargöng og suður eftir er tæplega 2 þús. bílar allt í allt á hverjum einasta degi. Fjöldi fólks fer til vinnu í höfuðborginni frá Akranesi og nágrannasveitarfélögum og til skóla.

Ég ætla að byrja að ræða aðeins um Vestfjarðaveg en eins og flestum er kunnugt um hefur verið mikil óvissa undanfarin ár um það hvaða leið sé hægt að fara til þess að fara í vegaumbætur um Vestfjarðaveg vegna fyrirhugaðra vegaframkvæmda á svæðinu um Ódrjúgsháls og Hjallaháls vegna Teigsskógar. Það er mjög jákvætt að sjá að veittir eru fjármunir í að hægt verði að laga veginn um Vestfjarðaveg nr. 60 og stefnt sé að því. Þetta óvissuástand hefur varað í of langan tíma og hefur áhrif á sveitarfélög og byggðarlög á sunnanverðum Vestfjörðum. Það er of oft sem við heyrum fréttir og vitum um einstaklinga sem komast ekki með verðmæti að sunnan og vestur eða af Vestfjörðum og suður. Það skiptir verulegu máli fyrir þá sem búa þar varðandi uppbyggingu ferðaþjónustu og áframhaldandi uppbyggingu ferðaþjónustu á þessu svæði og verðmætasköpun á svæðinu að þessi vegur verði lagaður.

Mig langaði að velta upp í ræðu minni, vegna þeirrar óvissu sem verið hefur um ákveðinn kafla í kringum Teigsskóginn, hvort hægt væri að bjóða út þann kafla leiðarinnar sem sátt ríkir um, þ.e. að þvera kannski Gufufjörð og Djúpafjörð, þannig að Vestfirðingar, aðallega á sunnanverðum Vestfjörðum, mundu losna fyrr við Ódrjúgsháls, hvort hægt væri að byrja á þeim vegarkafla með útboði sem fyrst. Þegar niðurstaða og sátt fengist í málið um hvaða leið ætti að fara um Teigsskóg væri hægt að halda áfram með verkefnið.

Þetta er hugmynd sem mig langaði að leggja inn í umræðuna en það er mikilvægt að einhver hluti þessa kafla komist af stað. Auðvitað má heldur ekki gleyma því að það hafa orðið miklar vegaumbætur á Vestfjarðavegi. Það er búið að þvera firði, það er búið að stytta leiðina og laga erfiða kafla þar sem mikil snjóflóðahætta var á innri fjörðum. Það er verulega gott að svo sé.

Auk þess sé ég í þessari tillögu að fjármunir eru áætlaðir í Bjarnarfjarðarháls og Veiðileysuháls og það er mjög gott því að leiðin þar um er oft erfið á köflum. Mig langar að nefna að kallað hefur verið eftir því úr Árneshreppi og á því svæði að samráð sé haft við íbúa svæðisins vegna þeirrar vegalagningar því að það eru jú þeir sem þekkja best aðstæður á svæðinu. Ég veit að það hefur verið haft samband þangað.

Það er afar ánægjulegt að Dýrafjarðargöng séu á dagskrá og séu næstu göng sem við förum í. Það eru mikil tækifæri í atvinnulífinu á Vestfjörðum en sunnanverðir og norðanverðir Vestfirðir eru sem eylönd stóran hluta ársins. Þess vegna ber að fagna að Dýrafjarðargöng séu komin inn á áætlun og að samhliða eigi að fara í veginn um Dynjandisheiði. Ég held að hv. þm. Kristján L. Möller hafi fjallað um það áðan í ræðu sinni að það þýðir ekkert að fara í Dýrafjarðargöng ef við komumst ekki að þeim um Dynjandisheiðina. Það er því mjög mikilvægt að Dynjandisheiðarvegur verði lagaður samhliða.

Auk þess langar mig til að velta því upp hvort hægt væri að skoða samlegðaráhrif af því ef farið væri í Álftafjarðargöng í framhaldi af Dýrafjarðargöngum og menn mundu nýta sér að tækin væru fyrir vestan og hvort það gæti jafnvel verið sparnaður fyrir ríkið að fara í þau í beinu framhaldi. Það eru fjármunir í áætluninni í snjóflóðavarnir við Súðavíkurhlíð. Mig langaði bara að velta þessu upp í þessari stuttu ræðu.

Ég get ekki annað en fagnað þeim fjármunum sem veittir eru til þessara svæða því að Vestfirðingar margir hverjir hafa beðið í mjög langan tíma eftir því að sjá að áherslan sé lögð á þau svæði og miklar vonir eru bundnar við að þessar framkvæmdir verði að veruleika.

Ég verð að nýta þann litla tíma sem ég á eftir af ræðu minni í að ræða það að í tillögunni er fjallað um að leitað verði leiða til að fjármagna Sundabraut með aðkomu einkaaðila. Í þessu samhengi langar mig að minnast á þingsályktunartillögu sem ég lagði fram í haust og lesa markmið hennar sem hljómar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að hefja viðræður við Reykjavíkurborg, Mosfellsbæ, sveitarfélög á Vesturlandi, Vegagerðina, samgönguráð og aðra hlutaðeigandi aðila um nauðsynlegar vegabætur á Vesturlandsvegi. Í viðræðum við framangreinda aðila verði stefnt að sameiginlegu átaki og áætlanagerð varðandi framkvæmdir á næstu árum við Vesturlandsveg um Kjalarnes, fyrirhugaða Sundabraut og hvernig bregðast skuli við vaxandi umferð í Hvalfjarðargöngum. Í framhaldi af viðræðum aðila verði lögð fram tímasett áætlun um framkvæmdir og fjármögnun þessara verkefna.“

Nú er það svo og það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum að það eru oft og tíðum uppi háværar raddir um það meðal íbúa norðan Hvalfjarðarganga, í nágrannasveitarfélögunum, að þeim finnst vera á sér svokölluð skattlagning vegna veggjalda um Hvalfjarðargöng. Því langar mig að segja að það er mjög mikilvægt, ef einkaaðilar koma að þessu verkefni, að gjaldtaka verði hófleg ef hún verður einhver. Þetta er ákveðin gjaldtaka og kostnaður sem sveitarfélögin bera og þeir íbúar sem sækja vinnu til höfuðborgar eða skóla sem búa norðan Hvalfjarðarganga, þar sem þetta er eina leiðin út úr höfuðborginni þar sem tekið er gjald af þeim sem fara þar fram og til baka. Mig langar í því samhengi að velta upp hvort hægt sé að vera með einhverjar mótvægisaðgerðir í þeim efnum. Vísa ég þá, með leyfi forseta, í þingsályktunartillögu sem ég hef lagt fram um að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt um að þeim sem fari langan veg til og frá vinnu, innan ákveðinna skilgreindra atvinnusvæða innan lands, verði veittur afsláttur af tekjuskatti. Þetta er hugmynd sem á rætur sínar að rekja til m.a. Norðurlandanna og unnið út frá þeirri fyrirmynd að mikilvægt sé að horfa til slíkra þátta þegar um gjaldtöku er að ræða, sérstaklega af einni leið út úr höfuðborginni sem felur í sér kostnað fyrir ákveðinn hluta íbúa landsins umfram aðra í þessum efnum.

En ég vil fagna því að samgönguáætlun sé komin fram og vona að hún hljóti góða efnislega meðferð í þeirri hv. nefnd sem hún fer til.