145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:12]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir við þessa umræðu fagna því að þessi þingsályktunartillaga er komin fram. Ég mun nota tíma minn í að ræða um það svæði sem ég þekki best, Suðurkjördæmi. Síðan ætla ég að fara í ákveðnar framtíðarhugmyndir sem eru mjög nálægar í tíma. Mig langar að byrja á uppsetningu á þessu ferli sem samgönguáætlun er, sérstaklega þessu ferli sem fer í gegnum Alþingi sem mér finnst ágætt að velta upp og þætti gott ef einhverjir mundu ræða við mig um.

Það er þannig að áætlun sem þessi byrjar hjá samgönguráði. Samgönguráð fer vítt og breitt um landið; fær áherslur hjá landshlutasamtökum og sveitarfélögum, örugglega sérfræðingum, öllum sem vilja leita til samgönguráðs, hefur innan sinna vébanda Vegagerðina sem hefur gríðarlega þekkingu á þessu máli og smíðar síðan tillögu sem kemur fyrir þingið með samþykki ráðherra, smíðar tillöguna sem við erum að fjalla um. Síðan ræðum við þingmenn um þessa tillögu og við segjum hvað okkur finnst. Svo fer málið til nefndar. Þá köllum við kannski alla þessa sömu gesti aftur á fund og fáum sjónarmið þeirra á því hvað eigi að bæta og hvað sé vel gert í áætluninni. Kannski gleymdist eitthvað eða kannski sýnist okkur ástæða til að bæta við.

Þegar við erum búin að afgreiða þetta í þeirri nefnd sem ég sit í, umhverfis- og samgöngunefnd, oftast með ákveðnum breytingum sem bæta í fjárhæðirnar, þá er ferillinn hér í þinginu ekki búinn. Þá á málið eftir að fara fyrir fjárlaganefnd og í fjárlagaumræðu og eins og við sáum á síðasta þingi gerði fjárlaganefnd fleiri breytingar. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé eitthvað hægt að breyta þessum fleti; að við þingmenn séum í tveimur nefndum að breyta þessu faglega plaggi, vil ég segja, þannig að við getum gert þetta einhvern veginn markvissara og að við séum ekki alltaf að karpa um eina og eina framkvæmd í þingsal.

Þá er ég að hugsa til rammaáætlunar, að samgönguáætlun gæti verið eins konar listi, númeralisti, og síðan mundi þingið ákveða hve miklir fjármunir fara í þetta og þá mundi saxast á listann. Ég vil líka sjá að við setjum ekki fjármuni í þennan lista án þess að vera búin að fullfjármagna allt viðhald. Ég fagna þeirri áherslu sem ráðherra boðar nú að setja 3 milljarða auka árin 2017 og 2018, á næsta og þarnæsta ári, og sérstaklega milljarð í viðhald; ég fagna því gríðarlega. En hugmyndinni að þessum ferli vildi ég varpa upp hér fyrir þingið til þess að ræða og fjalla um og eiga skriflega.

Hæstv. forseti. Ég hélt að ég ætti meiri tíma aflögu en ég verð þá að koma í aðra ræðu hér á eftir. Mig langar að nýta síðustu mínúturnar mínar í að fjalla um ákveðna framtíðarsýn sem ég hef örlítið nefnt áður. Það eru svokallaðir sjálfkeyrandi bílar. Það er mjög stutt í að slíkir bílar gætu verið komnir á markað fyrir almenning. Ég veit að seint á síðasta ári keyrði sjálfkeyrandi bíll um Ísland. Hann kunni að sjálfsögðu ekki allar merkingar. Hann kunni til dæmis ekki að keyra um hringtorg. En þessi bíll var með gervigreind. Eftir að hafa keyrt nokkrum sinnum í gegnum hringtorg með aðstoð ökumanns þá lærði hann það. Eftir ákveðið mörg skipti kunni bíllinn líka að keyra í gegnum hringtorg.

Þeir sem eru að vinna í þessum geira og þekkja vel til segja að tækniþróunin í þessum málum sé alveg gríðarlega hröð og sé miklu hraðari en við áttum okkur á. EuroRap er að kortleggja núverandi vegi og það nýtist fyrir sjálfkeyrandi bíla, þannig að þeir geti skilið yfirborðsmerkingar og jafnvel lesið á skilti. Ég sé fyrir mér að sjálfkeyrandi bílar gætu orðið nýtt almenningssamgöngukerfi, að nógu margir bílar væru í kerfinu, rafmagnsbílar í snjallkerfi. Gerð hefur verið úttekt á þessu hjá KPMG fyrir borg í Ástralíu og Gautaborg í Svíþjóð, þ.e. á hagkvæmni og stærðarhagkvæmni. Mér sýnist, af þeim gögnum, að slíkt muni henta stærð höfuðborgarsvæðisins ágætlega og hugsanlega Akureyri; en alla vega höfuðborgarsvæðinu.

Bílar eru þá ekki lengur bílar. Þeir yrðu eins konar snjallsímar á hjólum af því að þeir tala hver við annan. Ef einn bíll í röðinni hægir á sér vita allir hinir bílarnir það. Vissulega þarf ýmislegt að gerast áður en slíkir bílar geta keyrt á götum borgarinnar og ég held að það sé ekki síðar en núna að fara að huga að því. 5G-tæknin er lykilþáttur í því að þetta samskiptakerfi geti átt sér stað og það er mjög stutt þangað til að sú tækni kemur. Það þarf líka að uppfæra löggjöf, m.a. umferðarlögin, álitaefni um persónuupplýsingar og fleira í þeim dúr. Ég hvet þingheim til að skoða þetta með opnum huga og sjá hvað önnur ríki eru að gera í þessum efnum. Mjög margir bílaframleiðendur horfa til þessarar tækni í kringum sjálfakandi bíla og mikill hluti af tækninni er kominn í ákveðnu bútaformi — bíllinn leggur í stæði fyrir mann, alls konar hjálpartæki eru komin, hægir jafnvel á og skynjar aðra umferð.

Virðulegur forseti. Ég hef innan við eina mínútu núna þannig að ég held að það taki því ekki fyrir mig að byrja á nýrri efnisgrein. Ég fæ að koma í aðra ræðu hér á eftir.