145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég á við sama vanda við að stríða og hv. þingmaður og það er tímaskortur í ræðu hans. Ég hefði viljað hafa hana lengri. Mér þótti hún mjög áhugaverð og hann fór inn á atriði sem við höfum ekki rætt mikið í samhengi við samgönguáætlun og það eru sjálfkeyrandi bílar, rafbílar og því um líkt, sem eru atriði sem við eigum að vera að ræða meira. Ég hélt að ég yrði fyrsti maðurinn til að ræða þá á eftir en ég hyggst halda ræðu um rafbíla og nýsamþykkta stefnu Pírata.

Mig langaði að heyra meira frá hv. þingmanni um það hvernig hann sér fyrir sér að bæta megi ferlið við gerð samgönguáætlunar. Það er ekkert leyndarmál að þetta er á pólitískum grunni. Það er beinlínis minnst á kjördæmi í tillögunni, enda í sjálfu sér ekkert óeðlilegt með hliðsjón af því að auðvitað er það hlutverk þingmanna að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna. Hins vegar væri betra og minna vesen fólgið í því almennt, bæði pólitískt held ég og hvað varðar verklagið, ef það væri til eitthvert faglegt ferli í kringum það hvernig samgönguáætlun er gerð.

Vissulega eru faglegir þættir og fagaðilar sem koma að málunum en á endanum verður þetta alltaf mjög pólitískt og menn gantast með það þegar þeir sjá landsbyggðarþingmenn raðast inn á mælendaskrána í umræðu um samgönguáætlun í hinu svokallaða kjördæmapoti, sem ég tel ekki vera gott orð yfir það að þingmenn gæti hagsmuna umbjóðenda sinna í því fyrirkomulagi sem við vinnum eftir eins og er.

En ég hefði mikinn áhuga á að heyra hugmyndir hv. þingmanns um það hvernig megi bæta, og taka meira af pólitíkinni út úr samgönguáætlun, ef ég skil hv. þingmann rétt, eða öllu heldur vinna hana þannig að hún sé kannski meira á grundvelli jafnræðis og faglegra sjónarmiða en það lítur út fyrir í það minnsta þegar kemur að kjördæmaspurningum og hagsmunavörslu þingmanna gagnvart umbjóðendum sínum.