145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:24]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni tækifærið til að ræða þetta aðeins betur. Hugmyndir mínar eru ekki fullmótaðar eða ég er ekki tilbúinn til að leggja fram neinar konkret tillögur. Ég kalla eftir samræðum og samtali.

Minn útgangspunktur í þessu er öryggi í samgöngumálum. Við höfum stillt flugi þannig upp að okkur finnst óásættanlegt að einhver deyi í flugi. Við höfum gert átak í því á sjónum og okkur finnst óásættanlegt að einhver deyi á sjó. Ég held að það sé kominn tími á að við vinnum okkur í áttina að því að okkur finnist líka óásættanlegt að einhver deyi á landi, að einhver deyi í bílslysum eða í umferðarslysum.

Eitt af því sem nefnt hefur verið í mín eyru er að pólitíkin slíti oft í sundur eða reyni að slíta í sundur verkið. Pólitíkin er kannski að reyna að hafa áhrif á það hvort varið sé minni peningi í ákveðinn veg þannig að hann verði 2+1 í staðinn fyrir 2+2, bara sem dæmi.

Mér finnst að það eigi ekki að vera umræðan hjá okkur. Við eigum ekki að gefa afslátt af örygginu af því að með því getum við kannski sett í þennan veg á þessum stað líka, slegið af kröfunum á einum stað og sett smáklípu á annan stað í staðinn.

Það er þannig sem ég mundi vilja nálgast þessa umræðu, að öryggið væri númer eitt, tvö og þrjú og við settum ekki fjármuni í þennan veg af því að við fáum svo og svo mörg atkvæði fyrir það heldur færum eftir því hvar þörfin er mest út frá öryggissjónarmiði.