145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:28]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að fá að segja frá því sem ég hef kynnt mér í þessum málum. Þeir sem hanna þessi kerfi og bifreiðar segja að svarið sé tvímælalaust já, það muni draga úr slysum.

Í fyrsta lagi er það af því að bílarnir tala saman. Svo getur maður nefnt annað og það er að alvarlegustu slysin verða þegar umferðarljós klikka, þegar eitthvað gerist með þau. Ég sé fyrir mér að þau gætu verið hluti af þessu kerfi þannig að bílarnir viti ef eitthvað er að umferðarljósunum.

99%, plús/mínus, ég veit ekki með hversu mörgum aukastöfum, alvarlegra slysa í umferðinni verða vegna mannlegra mistaka. Bílarnir eru orðnir það fullkomnir í dag.

Ég veit ekki hvað það tekur langan tíma fyrir okkur, hvort sem það kemur með fyrstu kynslóðum eða seinni kynslóðum af sjálfkeyrandi bílum, að verða sátt við umferðaröryggi, að við getum sagt að dauðsfall verði í einu af milljón tilvika, eða ég veit ekki hvaða viðmið við munum setja okkur. Þetta er eitthvað sem mér finnst að þingið eigi eftir að ræða.

Eitt praktískt sem ég lærði í verkfræðinni er að viðbragðstími ökumanna við áreiti eða því sem gerist í umferðinni er 2,5 sekúndur. Á 90 km hraða eru það 60 metrar. Þann tíma er klárlega hægt að stytta, að mínu mati.