145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:30]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu. Við sitjum saman í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og þar hefur þau sjónarmið borið á góma sem hv. þingmaður vék að í ræðu sinni og í andsvörum við hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson, hvað varðar umferðaröryggismálin.

Hér hefur verið vikið að fjölda látinna í umferðinni sem eru sannarlega allt of háar tölur fyrir okkur. Ekki síður er fjöldi alvarlega slasaðra í umferðinni áhyggjuefni og svo, eftir því sem ég fæ best séð, vaxandi hlutfall ferðamanna í þeim tölum. Ég vil því spyrja hv. þingmann um þá áherslu sem lögð er í umferðaröryggisáætlun á gerð námsefnis og upplýsinga sem komið er á framfæri við erlenda ökumenn og heimasíðu Samgöngustofu. Telur hv. þingmaður nóg að gert í þeim málum?

Væntanlega mun hann svara því svo að alltaf sé hægt að gera betur, það er sígilt svar. En ég held að þetta sé verulega stórt umfjöllunarefni fyrir okkur hér með vaxandi fjölda ferðamanna. Kannski erum við ekki að hugsa nógu mikið í þá veru.

Ég vil líka aðeins nefna það sem kom fram í samskiptum hv. þingmanna rétt áðan um að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna. Ég tel að það orðalag eigi engan veginn við vegna þess að það er náttúrlega verkefni okkar allra að gæta að góðu samgöngukerfi alls staðar á Íslandi; ekki bara í okkar kjördæmum, eins og gjarnan er rætt, vegna þess að það varðar hagsmuni alls samfélagsins.

Ég kem að síðari hluta spurningar minnar í seinna andsvari.