145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:32]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir spurningarnar og andsvar hennar hér áðan. Mitt svar er á þann veg að alltaf sé hægt að gera betur. Það er alltaf hægt. Ég held að það sé verið að vinna ágæta vinnu hjá Samgöngustofu í því að ná til erlendra ferðamanna. Samt sjáum við alvarleg slys gerast, sérstaklega á undirlendi Suðurkjördæmis.

Eins og réttilega var nefnt einblínum við kannski of mikið á tölu látinna. Ég hef aðeins skoðað þann gagnagrunn sem flokkar slysin eftir alvarleika og held að það sé ógerningur fyrir þingmenn að fara að flokka kosti eftir þeim upplýsingum, annað en það sem kemur frá samgönguráði og sérfræðingum. Ég vil helst að við krukkum, ef ég má nota það orð, sem minnst í svona áætlun. Mér sýnist á þessari áætlun að verið sé að taka á stærstu verkefnunum. Ég tek líka undir það sem aðrir hafa sagt að auðvitað vill maður sjá meiri fjármuni.

Ég ætla að leyfa mér að rifja hér upp, af því að hv. þingmaður er í andsvari við mig, tillögu hennar um útskot eða áningarstaði fyrir ferðamenn. Ég held að það væri mjög gagnlegt að setja þannig útskot upp. Samt mun fólk alltaf (Forseti hringir.) stoppa á annarlegum stöðum. Ég man eftir einum stað í Skíðaskálabrekkunni; það var ferðamaður í snjóbyl, stoppaði í miðri brekku, ekkert útskot hefði getað bjargað honum.