145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:49]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir árnaðaróskir til mín, að vera staddur hér í þessari pontu, (KLM: Sem 1. þm. Norðaust.) 1. þm. Norðaust. Ég veit að hv. þm. Kristján Möller langaði lengi vel til að verða það en úr varð ekki. (KLM: Nei, nei.)

Fyrst aðeins að Dettifossvegi. Það skiptir mig engu máli hvenær hann verður gerður, en augljóst er að peningarnir sem áttu að fara í þann veg fóru eitthvað annað og ekki er búið að skila þeim, eða hvernig sem við viljum orða það. Þeir eru ekki komnir á þann stað sem við viljum, og ég held að hv. þingmaður deili þeirri skoðun með mér að þeir eiga að sjálfsögðu að vera á þeim stað að klára Dettifossveg. Það er alveg rétt. Ég er sammála því. Það eru tæplega 3 kílómetrar, held ég, sem er verið að fara í núna, sem er bara plástur. Að sjálfsögðu eiga menn bara að klára þetta, þennan Dettifossveg, þennan hringveg, tengja saman þjóðveg 85 upp á þjóðveg 1. Ég held að við deilum algjörlega þeirri skoðun. Ég stend hér einmitt í þeirri von og þeirri trú að þar verði breyting á. Hvort ég styðji ályktunina í heild sinni, eins og ég segi stend ég hér í þeirri von að breyting verði á þessari áætlun þannig að menn geti að sjálfsögðu samþykkt hana.