145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:20]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Samgöngumálin eru eitt mikilvægasta málið í samfélagi okkar, eitt af því sem við köllum grunnþjónustu og skiptir miklu máli fyrir gang þjóðfélagsins á margan hátt. Ég lýsti því yfir í þessum ræðustól áðan að samgöngumál séu eitt stærsta heilbrigðismálið, að þau skipti miklu máli upp á það hve mikið er að gera í heilbrigðiskerfinu. Ef samgöngumálin ganga vel upp höfum við líka úr meiru að spila fyrir heilbrigðiskerfið. Það skiptir miklu máli hvernig við framkvæmum samgönguáætlun, hvernig við forgangsröðum fjármunum í hana og hvernig við forgangsröðum þeim fjármunum sem í hana fara.

Ég vil byrja á því að gera verklagið að umtalsefni. Við höfum frekar stutt lög um samgönguáætlun sem segja til um það hvernig hún eigi líta út og hvað eigi að vera í henni. Það er kannski byrjunin að fara yfir það, en það eru flugmál, vegamál og siglingamál. Þar inni eru almenningssamgöngur, hafnamál, sjóvarnir, öryggismál og umhverfismál, allt eru það samgöngumál. Þetta er mjög stór málaflokkur þannig að þegar búið er að forgangsraða fjármunum í samgöngumálin þurfum við að ákveða hvernig við ætlum að nýta þá fjármuni og forgangsraða þeim innan þessa stóra og fjölbreytta málaflokks.

Þá er hér líka smáleiðarljós í því hvernig samgöngur eigi að vera, þ.e. greiðar samgöngur, hagkvæmar samgöngur, öruggar samgöngur og þá eiga samgöngur að vera umhverfislega sjálfbærar og stuðla að jákvæðri byggðaþróun. Þarna eru komnir nokkrir mælikvarðar á það hvernig þetta eigi að vera. Það er kannski það sem mér finnst við ekki vera að uppfylla í þessari umræðu hér og í því sem við erum að gera. Við erum með fjögurra ára samgönguáætlun en einnig er gert ráð fyrir 12 ára samgönguáætlun. Tólf ára áætlunin er þá kannski meiri stefnumótun og sýnir betur framtíðarþörfina í hverjum samgöngumáta fyrir sig; stöðu mála, hversu miklir fjármunir eru hugsaðir í þennan málaflokk til framtíðar litið og hver helstu verkefnin eru til að ná þeim markmiðum sem ég fór í. Í fjögurra ára framkvæmdaáætlun er farið nánar í verkefnin og nær núinu. Ég vil þá velta þeirri spurningu upp hvort það sé eðlilegt að við séum hér í þinginu, eftir alla þá miklu vinnu sem farið hefur fram í samgönguráði og þeim stofnunum og fyrirtækjum innanríkisráðuneytisins sem koma að samgöngumálum — þar hefur gríðarleg greiningarvinna farið fram við að uppfylla þessi markmið og leggja áætlun fram alveg niður í þessar framkvæmdir — að fara að ræða það hér í þinginu hvort þessi vegur sé farinn eða hinn flugvöllurinn byggður upp eða annað slíkt. Eigum við ekki að vera búin að búa til kerfi og hafa þá allar upplýsingarnar uppi á borðum um það hvernig við forgangsröðum þessum verkefnum út frá þeim markmiðum sem ég nefndi áðan? Mér finnst að þannig eigi þetta að vera en ekki miðast við það hver er frekastur fyrir sitt kjördæmi eða annað slíkt.

Þegar samgönguáætlun kemur fram hefur gríðarlega mikil vinna farið fram, vinna sveitarfélaganna, okkar þingmanna á hverjum stað, íbúanna, annarra hagsmunaaðila, við að vera í sambandi við þessar samgöngustofnanir ráðuneytisins til að meta þörfina og þjóðhagslegan ávinning af framkvæmdunum. Eftir það samtal treysti ég því að samgönguráð nýti þær upplýsingar til að búa til þessa áætlun sem við höfum. Ég vil að þessi umræða í framtíðinni snúist þá um það hvar er þjóðhagslega hagkvæmast að fara í framkvæmdir eða viðhald. Þá legg ég áherslu á mælikvarða sem er númer eitt í öllu þessu, og þannig mun ég horfa á þetta skjal hér, og það er umferðaröryggi. Hvernig tryggjum við öryggi? Það er samfélagslega mjög dýrt, bæði tilfinningalega og fjárhagslega, að búa við öll þau umferðarslys sem hér verða. Algengustu banaslys á Íslandi eru í umferðinni og hún tekur hvað mestan toll. Í öllum öðrum kringumstæðum, þar sem jafn margir mundu látast í þessu samfélagi, yrði talað um hamfarir og almannavarnaástand.

Það er hamfaraástand þegar 200 manns á ári láta lífið eða slasast alvarlega og við þurfum að fara að ræða það hér hvernig við ætlum að ná þessari tölu niður. Þess vegna hef ég spurt innanríkisráðuneytið hvar áhættumestu vegarkaflarnir séu og hvar flestu slysin. Ég bíð eftir svari við spurningunni til að við getum lagt á það mælikvarða hvernig við getum forgangsraðað fjármagni til að draga úr slysum í samgöngukerfinu. Við þurfum að hafa þetta til hliðsjónar, allar stofnanir ríkisins, hvernig við drögum úr umferðarslysum. Það er svo margt hægt að gera. Það er hægt að bæta úr með öruggum mannvirkjum, með nýframkvæmdum, merkingum, forvörnum, eftirliti, fræðslu og bættu námi og reglum og hverju sem er. Það er allt þetta sem við verðum að gera. Þetta er númer eitt, tvö og þrjú.

Auðvitað þurfum við líka að taka á því hvað er jákvæð byggðaþróun og hvað er þjóðhagslega hagkvæmt til að nýta fjármunina sem best og til að skapa meiri framleiðslu og tekjur í samfélaginu þannig að við höfum þá meira til að standa undir því þegar samfélagið er að stækka og vaxa með atvinnulífinu. Þá þarf að taka þetta inn. Við þurfum að hafa gagnsætt kerfi þannig að allar þessar rannsóknir og greiningar og útreikningar liggi fyrir. Ég efast ekki um að unnið sé eftir þessu faglega ferli hjá viðkomandi stofnunum en það bara birtist okkur ekki. Við erum ekki með þessar rannsóknir, við erum ekki með þessa útreikninga, við erum ekki með þessar tölur í skjölunum. Þær liggja ekki fyrir. Ég er viss um að unnið er eftir faglegu ferli en það er það sem við viljum sjá. Við viljum fá að sjá stefnumörkun, hver sé forgangsröðunin, hver sé þörfin. Út frá því getum við forgangsraðað hvað við setjum mikið í samgöngumál, heilbrigðismál, menntamál og annað slíkt. Það er það sem er hlutverk þingsins, við verðum að vinna út frá slíkum reglum.

Þess vegna tel ég mjög mikilvægt — það er eitt af því jákvæða í þessu, það er fullt af jákvæðum málum í þessu plaggi þó að gera megi betur — að meira verði sett í rannsóknir. Það hjálpar okkur að auka gagnsæið. Eins og flestir þingmenn sem hafa tekið til máls hafa komið inn á þá er svo margt sem hægt er að ræða í þessu, hvernig samgöngukerfið er búið undir framtíðina, hvernig við fjármögnum þennan málaflokk, hvernig við skipuleggjum hann á sem hagkvæmastan máta, hvernig við náum umhverfismarkmiðunum og annað.

Ég hef ákveðið að leggja áherslu á það í mínu máli núna hvernig aðferðafræðin er við þetta. Þess vegna ætla ég ekki að fara að tala um einstakar framkvæmdir hér eða hafnamál eða samgöngumál eða flug eða annað slíkt. Það er þannig sem ég mun líta á málin í vinnunni hér. Ég hef komið að fjölda verkefna í samvinnu við sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila, við Vegagerðina, og mun halda því áfram. Ég vona að við getum farið að horfa á heildarmyndina í þessari umræðu. Það er vissulega margt sem ég hefði viljað sjá öðruvísi í þessari samgönguáætlun en mér finnst, eftir þá vinnu sem á undan er gengin, erfitt fyrir okkur að fara að hreyfa við svona niðurnjörvuðu skjali og einstaka framkvæmdum í þingnefnd. Ég vona að við getum sammælst um það hér í þinginu að setja umferðaröryggið á oddinn.