145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:34]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir spurningarnar og kem að fjármögnuninni. Hver er ástæðan fyrir því að ekki er meira fjármagn þarna? Ég skil að meðan uppgangur er í samfélaginu og fyrirtæki og atvinnulífið í miklum framkvæmdum sé erfitt fyrir ríkið að stíga inn í of mikla opinbera fjárfestingu og á sama tíma meðan okkur gengur ekki betur en raun ber vitni að draga saman í rekstri ríkisins. Ég held að það sé eitt það mikilvægasta núna að við forgangsröðum þannig að við getum dregið tekjurnar saman annars staðar í rekstri ríkisins eða rekið ríkið á hagkvæmari hátt. Þá höfum við meira svigrúm til að fara í þessar mikilvægu framkvæmdir. Það er eitt af því sem ég skil.

Ég er mjög sáttur við margt sem er í mínu kjördæmi í þessu en ég horfi á það út frá umferðaröryggi og segi: Það vantar töluvert mikið fjármagn upp á til að geta tryggt nægilegar framkvæmdir í mínu kjördæmi til að fækka einbreiðum brúm hraðar. Í þessari áætlun verði þeim fækkað um fjórar á leiðinni austur. Það þarf að gera miklu betur í því. Svo er sérstakt fjárframlag fyrir utan það til að fækka einbreiðum brúm sem ég geri ráð fyrir að fari í fleiri brýr.

Gert er ráð fyrir því að aðskilja akstursstefnur og breikka Suðurlandsveginn alveg að Selfossi sem er gríðarlega mikilvægt. Það er gert eins hratt og hægt er. En við þurfum að klára Reykjanesbrautina í báða enda en þarna er byrjað á því með því að gera gatnamót við Reykjanesbraut og Krýsuvíkurveg. Þetta eru mikilvægustu umferðaröryggisatriðin.

Svo er líka jákvætt að það er verið að aðskilja akstursstefnur á Vesturlandsvegi og það er gríðarlega mikilvægt. Það hefur sýnt sig. Frá því að byrjað var að tvöfalda Reykjanesbrautina (Forseti hringir.) árið 2004, hefur enginn látið lífið þar. Á sama tíma hafa 15 látið lífið á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi.