145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:58]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég ætlast ekki til þess að hún fari að ræða sérstaklega einstaka vegaframkvæmdir sem ég gerði að umtalsefni. Það sem mér finnst mikilvægt að heyra frá hæstv. ráðherra eru stóru línurnar. Hún nefndi það sem snýr að orkuskiptum í samgöngum, en þar eru óteljandi viðfangsefni sem krefjast líklega innviðafjárfestingar. Það er ekki sjálfgefið að þeir sem vilja skipta yfir í rafbíla — þar hafa ívilnanirnar vissulega skipt máli — hafi til þess aðstæður hvar sem þeir búa, t.d. til að hlaða slíka bíla. Það þarf helst að vera með slíkt aðgengi heima hjá sér ef það á að duga svo að dæmi sé tekið. Það er skortur á þessum innviðum ef við horfum á það.

Ég vil líka nefna með almenningssamgöngurnar. Auðvitað þurfa þær ekki að útiloka annars konar samgöngumáta, en til þess að geta verið góður og raunhæfur valkostur, segi ég sem notandi almenningssamgangna, þá skiptir máli að við tryggjum tíðar ferðir. Það sem mestu skiptir eftir því sem ég þekki þessi mál, hæstv. ráðherra hefur vafalaust lesið margar rannsóknir um það, í samfélagi nútímans er tíminn, að samgöngurnar séu tíðar og komi manni á staðinn eins fljótt og mögulegt er. Það er það sem við sækjumst eftir í nútímasamfélagi og það kostar auðvitað fjármuni. Ég held að hvort tveggja skipti máli til þess að ná metnaðarfullum markmiðum.

Ég fagna því að verið sé að vinna að þeirri þingsályktunartillögu sem ég nefndi áðan um léttlestakerfi í samvinnu við sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég lýsi því aftur að ég held að þarna sé málaflokkur sem við eigum að fjárfesta í. Það skiptir máli fyrir hið stóra samhengi hlutanna, það skiptir ekki bara máli fyrir greiðar og öruggar samgöngur heldur líka fyrir loftslagsmarkmiðin. Þar held ég að Íslandi eigi mikil sóknarfæri.

Ég vonast til þess að hv. umhverfis- og samgöngunefnd skoði þetta sérstaklega í samvinnu við ráðuneytið, ég tala nú ekki um ef við gætum (Forseti hringir.) fengið einhverjar vísbendingar um niðurstöður athugunar á hagkvæmni sem ég nefndi hér áðan áður en umfjöllun um þetta mál lýkur á vegum þingsins.