145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:29]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með umræðunni hér í dag um þingsályktunartillögu um fjögurra ára samgönguáætlun. Ísland er tiltölulega stórt land og tiltölulega strjálbýlt og ekki nóg með það heldur erum við líka svolítið fá sem gerir það að verkum að það er mjög dýrt að reka almennilegt samgöngukerfi, alveg sama hvað það er. Það sem ég hef hins vegar tekið eftir á ferðum mínum um landið, af því að þrátt fyrir allt fer ég líka stundum út fyrir 101, þótt það komi ekki oft fyrir, er að vegirnir á Íslandi eru langt fyrir neðan allt annað sem ég hef kynnst.

Ég hef ferðast víða upp í fjöll í Kákasus í Georgíu þar sem vegirnir voru jafnvel aðeins skárri en á Vestfjörðum. Ég hef keyrt um pólska vegi sem voru byggðir á tímum sósíalismans og voru töluvert skárri en þeir vegir sem liggja í gegnum borgina. Ég hef keyrt í gegnum vegi í austurhluta Tyrklands þar sem maður hefði ekki haldið að væru vegir sem væri eitthvað til að tala um, en jafnvel þar voru hinir prýðilegustu vegir sem voru breiðir með góðum öxlum og þokkalega öruggir.

Mér finnst svolítið vanta upp á þetta á Íslandi. Kannski líðum við einmitt svolítið fyrir það að við erum stórt og strjálbýlt land með tiltölulega fátt fólk. Það á hins vegar ekki að vera afsökun þannig lagað séð. Þetta er kannski ástæða fyrir því að þetta getur verið svolítið erfitt, en ég held að það eigi samt ekki að verða til þess að sumir landshlutar standi út fyrir boxið, að þeir fái ekki að vera með.

Við sjáum að sumir vegir, bæði á Austurlandi og á Vestfjörðum sérstaklega, hafa í raun aldrei verið uppfærðir. Við erum að tala um að margir slóðar voru upphaflega göngu- og hestaslóðar sem bundið slitlag var sett ofan á. Það er varla fyrir stóra bíla að keyra á þeim í dag en þeir gera það samt. Það er alveg með ólíkindum að fólk komist lífs af. Ég hef ekki farið þarna oft yfir, en ég var með lífið í lúkunum allan tímann og ég keyrði ekki sjálf.

Það sem hefur einkennt samgöngupólitík á Íslandi er hið eilífa kjördæmapot. Það kemur bersýnilega í ljós í þessari samgönguáætlun, þá sér í lagi þegar kemur að höfnunum. Öllu er raðað upp eftir kjördæmum. Mér þykir það skýrasta dæmi um það hversu hápólitískt þetta plagg er. Þess vegna er líka rosalega mikilvægt að það sé þverpólitísk samstaða um þetta á þinginu. Best væri ef þingið gæti í einhverri þverpólitískri sátt tekið þátt í að móta þetta mál mun meira en gert hefur verið hingað til þar sem áætlunin á náttúrlega að ganga út fyrir hvert kjörtímabil. Með samgönguáætlun og með öll stór og viðamikil langtímaplön gerist ekki allt saman á fjórum árum. Þessir víðfrægu 38 þingmenn sem ráða hér ríkjum í dag verða kannski ekki þeir sem ráða ríkjum eftir fjögur ár. Það er svolítið erfitt að fá yfirsýn. Þetta er nákvæmlega það sem hefur verið gagnrýnt með Ísland, það að ekki er hægt að ganga út frá því að stefnur haldist. Það er dýrt að leggjast í framkvæmdir hjá hinu opinberlega einfaldlega af því að einhverjum gæti dottið í hug að hætta við eftir pólitískum vindum. Það er nokkuð sem má ekki bitna á samgöngum. Það þarf að vera þverpólitísk sátt um það að alls staðar séu vegir öruggir. Það á ekki að vera í boði að leiðin frá Patreksfirði til Reykjavíkur eða til Ísafjarðar sé ómalbikuð á einhverjum vegpunkti eða stórhættuleg af því að þetta er stórhættulegt eins og staðan er í dag.

Það er eitt sem ég hef ekki skilið við íslensk samgöngumannvirki enn sem komið er, það að þótt kominn sé nýr vegur er ekkert endilega búið að búa til nýja brú. Á mörgum fallegum, breiðum vegum víðs vegar um landið eru enn einbreiðar brýr. Tveir erlendir ferðamenn létust þegar þeir keyrðu á einbreiða brú fyrr í haust á fínum og breiðum vegi. Þegar vegurinn er betri og breiðari en brúin er erfiðara fyrir bílstjórann að bregðast fljótt við.

Við hjá Pírötum höfum oft talað um nethlutleysi. Mér finnst alveg hægt að draga línu þegar kemur að vegakerfinu og þeim samgöngum sem við erum með og hún er sú að allar leiðir eigi að vera greiðar. Það á ekkert að vera sem hindrar. Við eigum að hafa einhvern standard um það hvað er góður vegur. Það er alveg sama hvort vegurinn er í Reykjavík eða Neskaupstað. Slæmur vegur er slæmur vegur, alveg sama hvar hann er. Við hljótum að geta verið sammála um það og þá þarf vegurinn að vera uppfærður. Það er alveg sama hvort tíu manns fara um hann á dag eða hundrað, ef við ákveðum að hafa almennilegt vegakerfi sem við getum farið um þurfum við bara að gera það að raunveruleika.

Ég vil meina að samgöngukerfið okkar sé ákveðið net, netið okkar allra sem við eigum að vinna stöðugt að. Þetta á ekki að vera eitthvert deilumál. Þetta á að vera eitthvað sem við getum verið sammála um, sama hvað. Þess vegna finnst mér svo sérstakt að sjá þegar ég rýni í samgönguáætlunina að þetta er gamaldags kjördæmapot. Það er kannski liðin tíð eða ég vona að þetta verði bráðum liðin tíð. Eftir því sem ég hef komist næst hefur þetta breyst mjög mikið á undanförnum árum, samgönguáætlun fyrr á tíð var miklu meira kjördæmaskipt. Mér finnst það ekki sérstaklega fræðileg nálgun á því hvernig eigi að skipta vegum eða samgöngumannvirkjum til að stuðla að betra samgönguneti fyrir Ísland, kjördæmin eiga ekki að ráða úrslitum um það.

Mér finnst einnig slæmt að þetta plagg komi í aðdraganda kosninga, það verður að segjast, af því að þetta er mikið hitamál fyrir mjög marga Íslendinga. Það eru mjög margir sem komast ekki til vinnu eða ekki til læknis í Reykjavík af því að það er ófært eða af því að vegurinn er svo slæmur. Þetta er nokkuð sem allir tengja við. Mér finnst ekki góður bragur á því að þetta komi svona seint inn í þingið, rétt fyrir boðaðar kosningar. Ég verð að segja að það væri hægt að vinna svona lagað í miklu meiri þverpólitískri sátt á opnum nefndafundum eða vinnufundum þar sem fólk gæti komið og útskýrt þetta fyrir okkur. Við gætum þá gert þetta að einhverju tilraunaverkefni. Svona þverpólitísk vinna hefur reyndar verið unnin áður, en þetta er alveg dæmi um eitthvað sem við eigum að vinna miklu frekar saman að þar sem þetta er nokkuð sem kemur okkur öllum við.