145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:38]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018. Sú áætlun er í samræmi við heildaráætlun, samanber lög nr. 33/2008, og rammar áætlunina inn sem gildir fyrir árin 2011–2022 þar sem stefna og markmið eru sett fyrir allar greinar samgangna á 12 ára tímabili.

Mig langar aðeins að vísa í þá áætlun og held að afar gagnlegt sé að gefa sér tíma til að skoða þessar áætlanir samhliða. Þar segir:

Unnið skuli að samgöngumálum í samræmi við áætlun sem felur í sér stefnumótun í samgöngumálum og helstu markmið sem vinna skal að, skilgreiningu á grunnneti samgöngukerfisins sem nær til alls landsins og er ætlað að tryggja landsmönnum greiðar samgöngur, áætlun um fjáröflun til samgöngumála, yfirlit um útgjöld til allra helstu þátta í rekstri samgöngustofnana, svo og viðhalds öryggismála og nýframkvæmda á sviði siglingamála, flugmála og vegamála.

Í þeirri áætlun sem er til umræðu eru áætlaðar greiðslur úr ríkissjóði til næstu fjögurra ára. Ég vil merkja þar mikilvægar úrbætur í samgöngumálum og fjárfestingu í þess konar formi innviða. En hún er jafnframt varfærin, ég held að það sé vel, þar sem þetta eru nokkuð jafnar fjárhæðir á fjögurra ára tímabili.

Ég ætla að líta til þeirra markmiða sem eru tilgreind, vegna þess að þetta er áætlun og stefnumótandi sem slík. Þarna eru markmið um greiðar samgöngur sem eru auðvitað mjög mikilvægar fyrir allt mannlíf og atvinnulíf og allt almennt aðgengi svo að kerfið virki og fólks- og vöruflutningar gangi eðlilega fyrir sig og samgöngur innan svæða og milli svæða. Slíkar samgöngur þurfa að vera hagkvæmar í byggingu, í rekstri kerfa og viðhaldi, en þess má sjá stað í áætluninni. Við einblínum gjarnan á vegina vegna þess að við notum þá daglega, bæði til að komast í og úr vinnu og hvað annað sem tilheyrir daglegu lífi okkar. Það er víða þörf á úrbótum, það hefur komið ágætlega fram í þessari umræðu, og við gerum jafnframt kröfu um að komast hratt og örugglega á milli staða.

Í þriðja lagi er í áætluninni talað um öryggi og mikilvægi þess að bregðast við því aukna álagi sem ferðamannafjöldi og umferð til landsins og um landið hefur lagt á samgöngukerfi okkar. Að lokum þarf uppbygging samgangna að stuðla að jákvæðri þróun byggðar. Þar er kannski mikilvægast að horfa til framtíðar og huga að framlagi landshlutanna til atvinnulífs og nýtingar auðlinda með það að markmiði að bæta lífskjör allra landsmanna.

Á undan mér töluðu hv. þm. Svandís Svavarsdóttir og hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir og gagnrýndu uppsetningu áætlunarinnar sem er kjördæmaskipt, ef svo má segja. Við ættum að gera okkur far um að horfa til landsins alls, ég tek undir það, ég ætla hins vegar ekki að gagnrýna þetta í áætluninni því að mér finnst einmitt gagngert horft til landshlutanna. Það er reyndar ekki oft sem við þingmenn á höfuðborgarsvæðinu og suðvesturhorninu höfum tækifæri til þess að merkja okkur í kjördæmi okkar, en mér finnst samgönguáætlunin fullt tilefni til þess.

Ég ætla að nota tækifærið og fagna mjög mikilsverðum úrbótum þar sem umferðarþunginn er mikill, eðli málsins samkvæmt, á suðvesturhorninu. Farið er mjög vel yfir svokallað skilgreint suðursvæði II, Reykjavík og suðvestursvæði, og þær úrbætur sem liggja fyrir á tímabilinu. Í fyrsta lagi er áætlun um að tvöfalda vegarkafla milli Langatanga og Skarhólabrautar í þéttbýli Mosfellsbæjar, en sá vegur er í dag þrjár akreinar án miðdeilis og miðjuvegriðs. Þá er stefnt að framkvæmd hringvegar um Kjalarnes með 2+1 braut árið 2018. Eins og komið hefur fram í umræðunni, og þá með tilliti til þess að við horfum til breyttrar umferðarmenningar og aukinnar notkunar almenningssamgangna, myndast oft umferðaröngþveiti víða á höfuðborgarsvæðinu snemma á morgnana og síðla dags þegar fólk er að fara í og úr vinnu, milli átta og níu á morgnana og fjögur, fimm, sex á daginn. Það eru fyrirhugaðar framkvæmdir til að bregðast við slíku. Til að mynda má nefna vegamót Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar, en full þörf er á að bregðast þar við. Lagt er upp með að vegamótin verði þrjár akreinar í hvora átt. Ég ætla að fagna því að komin sé niðurstaða í uppgjör við Kópavogsbæ um framkvæmd við undirgöng um Lindir.

Mislæg gatnamót eru gríðarlega aðkallandi öryggisframkvæmd. Síðast þegar við ræddum samgönguáætlun ræddum við um Krýsuvíkurafleggjara og er áætlað að farið verði í það verk 2017.

Ég vil svo nefna Kjósarskarðsveg en sá vegur var lengi látinn víkja til hliðar fyrir öðrum aðkallandi verkefnum. Sá vegur er orðinn býsna slæmur með tilliti til öryggis, bæði vegna mikillar aukningar almennrar umferðar og þungaflutninga sem ekki komast um Hvalfjarðargöng. Hér er lagt til að haldið verði áfram við endurgerð og endurbætur Kjósarskarðsvegar. Það er vel, virðulegi forseti. Ég er viss um að hreppsnefnd Kjósarhrepps fagni því eftir áralanga baráttu fyrir úrbótum.

Að lokum vil ég nefna að haldið verður áfram framkvæmdum við Arnarnesveg þar sem kaflinn frá Reykjanesvegi að Fífuhvammsvegi verður kláraður á næsta ári. Þetta er mikilvæg samgönguframkvæmd, ekki síst fyrir íbúa efri byggða Kópavogs. Talað er um að hátt í 20 þús. bílar fari um Fífuhvammsveg á dag og það geti myndast, og ég hef upplifað það sjálfur þar sem ég bý ekki langt frá, langar bílaraðir, öngþveiti þegar umferðin er mest. Þessi framkvæmd mun vafalítið létta á umferðinni um Fífuhvammsveg.

Það hafa margir þingmenn komið inn á hvernig ræðutíminn flýgur frá manni. Ég upplifi það sama.

Sjálfbærni og samgöngur eru í raun og veru alveg sjálfstætt viðfangsefni og markmiðið með sjálfbærum samgöngum er mikilvægt horft til framtíðar. Ég ætla að vitna í 12 ára áætlunina, kafla 1.3, þar sem segir að áætlun um sjálfbærar samgöngur verði unnin í samvinnu við sveitarfélög með aukna áherslu á almenningssamgöngur, göngu og hjólreiðar með þau markmið að leiðarljósi að draga úr umhverfisáhrifum, samgöngukostnaði og auka nærþjónustu við borgarana. Með áætluninni verði dregið úr mikilvægi einkabíla ásamt því að draga úr orkuþörf samgangna og breyta ferðavenjum.

Ég hlustaði af athygli á samtal hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur og hæstv. ráðherra Ólafar Nordal um þetta efni og tek undir að gera þurfi betur og bæta umferðarmenningu til lengri tíma og horfa til almenningssamgangna, rafbílavæðingar og allra orkusparandi aðgerða í þeim efnum.

Ég vil að lokum þakka fyrir þessa áætlun og það að hún sé komin til umræðu, það er full þörf á því. Ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með ágætisáætlun.