145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[19:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem hefur verið alveg ljómandi góð. Margt í henni er kunnuglegt þegar samgönguáætlun er til umræðu í þinginu. Fjögurra ára áætlun er í raun verkefnaáætlun og þá er eðlilegt að menn fari að ræða einstök verkefni og skiptingu slíkra hluta, auðvitað er það þannig og hefur verið allan þann tíma sem ég hef verið hér. Ég hygg að það hafi ávallt verið svo að mönnum finnst aldrei nóg að gert þegar kemur að samgöngumálum, þess eðlis er málaflokkurinn.

Mig langar hins vegar aðeins til þess að fjalla um nokkra þætti sem hafa verið nefndir hérna. Mér finnst umræðan kannski hafa snúist um tvennt, menn eru annars vegar að ræða einstök verkefni og hins vegar hitt sem er í raun og veru grundvöllur áætlunarinnar sjálfrar, þ.e. samgöngumála almennt, tilgangur þeirra nánast og hvað eigi að vera í svona áætlun. Samgöngumál eru auðvitað öxull í öllu þjóðfélaginu. Þau snúa að öllu sem við gerum. Þau fara inn á öll svið okkar daglega lífs, allt okkar skipulag, þannig að að sjálfsögðu er þetta umfangsmikill málaflokkur. En fjögurra ára samgönguáætlunin sem hér er til umræðu er náttúrlega órofa tengd 12 ára áætlun sem er í gildi. Fjögurra ára samgönguáætlun er sem sagt verkefnaáætlun 12 ára áætlunarinnar. Því er að vissu leyti dálítið vandmeðfarið að ræða hana án þess að vera með 12 ára áætlunina inni í myndinni af því að hún endurspeglar hana náttúrlega. Samgönguáætlunin er líka í eðli sínu áætlun sem fer þvert á kjörtímabil, gengur yfir langt tímabil, og er í sjálfu sér áætlun sem er að því leytinu til unnin þvert á allt. Þannig að ég held að mikilvægt sé að hafa í huga að þegar ráðherra á hverjum tíma leggur áætlunina fram þá endurspeglar hann í henni umræðu sem hefur átt sér stað í mörg, mörg ár, þótt að sjálfsögðu koma ákveðin áherslumál alltaf fram. Þetta skiptir mjög miklu máli.

Ég hef hins vegar hugsað mikið um það frá því að ég kom að þessu máli núna hvort framsetning áætlunarinnar eigi að vera með einhverjum öðrum hætti. Við erum oft að tala um hluti sem eru kannski vaxandi í umræðunni og er erfitt að setja fram með skýrum hætti í samgönguáætlun og það er í raun og veru samstarfið á milli málasviða þegar kemur að samgöngumálum. Hér hafa verið nefnd t.d. öryggismál sem eru gríðarlega mikilvæg. Við höfum lagt aukna áherslu á þau, bæði öryggi almennt og síðan ekki síst út af hinum mikla ferðamannastraumi sem við erum auðvitað þakklát fyrir því að hann hefur mikil og jákvæð áhrif fyrir þjóðarbúið, en krefst töluverðs af okkur. Samgönguáætlun endurspeglar þetta kannski á óljósan hátt þótt að þetta sé undirtónn í henni.

Ég vil líka taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur að þótt við séum að reyna að gera betur í því að herða á samtalið á milli t.d. ráðuneytis ferðamála og ráðuneytis samgöngumála þurfum við að vinna þetta miklu nánar. Kannski þyrfti að breyta framsetningu samgönguáætlunarinnar eitthvað með hliðsjón af því.

Ég nefndi í fyrri ræðu minni í dag að þótt mönnum finnist 12 ára tímabilið frekar langt þá er það stutt þegar það kemur að fjárfestingum í samgönguinnviðum. Ég hefði áhuga á því að við gætum komist á það stig að okkur tækist að tala um samgöngumál áratugi fram í tímann. Þess vegna nefndi ég í dæmaskyni til dæmis þjóðvegakerfið. Hér hefur verið talað um að sumir kaflar í þjóðvegakerfinu séu afar gamlir og það má taka undir að sá kafli á þjóðvegakerfinu sem nú er undir, þ.e. Vestfjarðavegur 60, það sem við erum að reyna að takast á við þar, er að hluta til fyrsta kynslóð þjóðvegar á Íslandi og að sjálfsögðu er hann allt öðruvísi en það sem við eigum að venjast í dag. Við erum að sjálfsögðu að taka utan um svona þætti.

Mér finnst skipta mjög miklu máli að þetta komi fram. Við í innanríkisráðuneytinu höfum verið að reyna að opna fyrir þessa umræðu og við settum þess vegna af stað svokallaða hvítbókarvinnu í samgöngumálum til þess að reyna að ná utan um þá þætti sem okkur finnst að eigi að hafa áhrif á umræður um samgöngumál í dag. Ég nefndi áðan öryggismálin, en umhverfismálin eru að sjálfsögðu hluti af þessu og aðrir atvinnuvegir eins og ferðamennskan og fleira. Allt þetta skiptir máli.

Svo vil ég líka láta það koma fram, af því að menn hafa verið að tala um uppsetninguna á áætluninni, að þetta er auðvitað allt mjög í föstum skorðum og gert að lögum. Ráðherra er skylt að leggja tillöguna fram. Þetta er lagaskylda. Það er ekkert val um það af hálfu ráðherra, fyrir utan að það er ómögulegt fyrir samgönguyfirvöld í landinu að ekki séu í gildi fjögurra ára áætlun. Það verður að vera framkvæmdaáætlun í gildi svo vel sé. Það vekur tortryggni gagnvart samgönguyfirvöldum ef menn hafa ekki samgönguáætlun í gildi, þannig að það skiptir gríðarlega miklu máli.

En það er samt þannig, og þetta er meira, virðulegi forseti, curiosum en eitthvað annað, að sú skipting sem er í áætluninni er reyndar ekki eftir kjördæmum. Hún er eftir starfssvæðum Vegagerðarinnar og lýtur ekki kjördæmaskiptingunni. Ef menn skoða áætlunina grannt þá sjá menn að hún fer ekkert eftir því. En af því framsetningin er með þessum hætti þá gerist það alltaf að menn fara að togast á milli kjördæma. Ég hef svolítið verið að kalla eftir því að menn lyfti sér aðeins upp yfir það og geri nákvæmlega þetta, hafi skoðun á samgöngumálunum í heild sinni, hvort sem um er að ræða eitthvað sem er á höfuðborgarsvæðinu eða einhvers staðar annars staðar. Bjarnarfjarðarháls á Ströndum er ágætisdæmi um framkvæmd sem varðar kannski ekki stóran hóp Íslendinga en er afskaplega merkileg og ætti að vera áhugasvið hjá öllum, finnst mér. Þannig að mér finnst gott að hugsa þetta svona. Mér finnst líka mjög mikilvægt að þingmenn höfuðborgarsvæðisins sem hafa einmitt verið að ræða þessi mál í dag, fjalli um mikilvægi þess að líka sé farið í framkvæmdir úti um land. Það veit ég að menn skilja afar vel. Mig langaði bara til að nefna þetta í tengslum við þetta mál.

Meginþráðurinn í umræðunni hefur síðan verið sá að menn vilja auðvitað sjá aukna fjármuni í samgöngumál. Eins og ég sagði í upphafsræðu minni eru engir loftkastalar í þessari áætlun af því að það er mín skoðun að maður þyrfti að sjá eitthvað fyrst í fjármögnun, þannig að það verður að minnsta kosti ekki meðan ég stend hér sem slíkar áætlanir verða lagðar fram.

Það komu örfáar athugasemdir. Hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir spurði um niðurfellingu á skuldum og neikvætt eigið fé Vegagerðarinnar og almennt um fjárhag Vegagerðarinnar og hvort ríkisstjórnin hefði tekið sérstaklega á því. Það er ekki búið að botna þá umræðu þannig að ég svari þingmanninum með það. Hún nefndi líka Dettifossveg og óskaði þess að hægt væri að klára hann á tímabilinu. Dettifossvegurinn er gömul saga og er náttúrlega óheyrilega dýr framkvæmd, við vitum það öll, en við ákváðum í fyrra að reyna að setja fókus á þá framkvæmd með því að veita sérstakt fjármagn í hana, þannig að það fékkst að minnsta kosti og við höldum áfram með það, þótt ég skilji ósköp vel að þeir sem búa á þessu svæði séu orðnir þreyttir á því að bíða eftir því að þessari framkvæmd ljúki.

Ég ræddi áðan um almenningssamgöngur og aðra orkukosti. Ég held að það sé mikilvægt að hafa í huga þegar við tölum um rafvæðingu að um leið og mikið þarf að gera í ákveðnum innviðum eins og sagt er til þess að hægt sé að hlaða inn á rafmagni þá er það líka bara þannig að við hvert einasta hús í landinu þyrftu menn að geta hlaðið bílana. Ég held að þarna sé um að ræða eitt af þeim málum sem við getum ekki fundið nógu mikið rúm fyrir í þessu þrönga kerfi sem áætlunin er í eðli sínu. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að við náum einhvern veginn að lyfta umræðunni örlítið upp og mér finnst að það hafi gengið ágætlega í dag. Ég óska þess að þinginu farnist vel í umræðum um samgöngumál í umhverfis- og samgöngunefnd og hlakka til að sjá afraksturinn af því.