145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

rannsóknarnefndir.

653. mál
[19:30]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er sammála hv. þingmanni um að rannsóknarnefndir eigi að vera síðasta úrræðið okkar. En til þess að svo sé held ég að við þurfum líka aðeins að endurhugsa hvernig nefndir geta sinnt rannsóknarhlutverki sínu almennilega, m.a. með því að þurfa að skila skýrslum ef það eru opnir nefndafundir sem snúast um rannsókn á tilteknum afmörkuðum málum.

Eitt af því sem ég þurfti að gera í vinnu minni á Evrópuþinginu var að skrifa það sem kallaðist „working paper“. Það mátti einungis vera átta blaðsíður að lengd og átti að útlista rannsóknarspurninguna og þau vandamál sem fælust í einu ákveðnu afmörkuðu sviði. Eftir það þurfti að kynna það fyrir nefndinni áður en sá Evrópuþingmaður sem ég var að vinna fyrir fékk að halda áfram með rannsóknina. Ég held að eitthvert svona fyrirkomulag — ég held að við getum lært mikið af Evrópuþinginu. Það er mjög stórt, viðamikið og fjölþjóðlegt þannig að þetta hefði þurft að ræða mjög ítarlega þegar því var komið á fót. Ég hefði viljað sjá meira rannsóknarvinnu á bak við þetta.

Það er ekki alltaf slæmt að takmarka blaðsíðufjölda, stundum er það nauðsynlegt, einfaldlega af því að það þarf að vera mögulegt fyrir manneskju að lesa skýrsluna og komast að kjarnanum. Ég hef lesið helminginn af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda bankahrunsins, fjögur bindi, og það verður að segjast að mikið af þessu efni var aukaefni sem hefði ekki þurft að vera í lokaskýrslunni þó að þetta séu rosalega góð gögn. Nú tala ég bæði sem sagnfræðingur og líka einhver sem hefur bara áhuga á að vita hvað gerðist. Það er helsta vandamálið. Þess vegna held ég að það að hafa skýrari vinnureglur og það að skýra ábyrgðarreglur, m.a. með að þurfa fyrst að skila inn vinnuskjali, (Forseti hringir.) yrði ábyggilega þinginu til bóta.