145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

rannsóknarnefndir.

653. mál
[19:34]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp liggur fyrir. Það hefur tekið nokkurn tíma að koma hingað og þess vegna hefur orðið seinkun á vinnu rannsóknarnefnda. Það er alveg hárrétt að vinna þeirra rannsóknarnefnda sem hér hafa rannsakað Íbúðalánasjóð og sparisjóðina virðist hafa farið nokkuð úr böndum og orðið miklu umfangsmeiri en fólk bjóst við. Það er mín skoðun, virðulegi forseti, að þingið hefði getað sett stífari ramma en gert var, en gott og vel með það, það er kannski bara mín prívatskoðun, en þá er það komið hér í form. Í frumvarpinu er lagt til að þingið geti sett ramma utan um störf slíkra nefnda. Það er mjög nauðsynlegt að þetta sé komið og það er gott vegna þess að við þurfum að hafa tækifæri til að setja á stofn þessar rannsóknarnefndir.

Mig langaði til að spyrja forseta, flutningsmann frumvarpsins, hvort það sé rétt skilið hjá mér að sú rannsókn sem bíður, um það sem við höfum kallað einkavæðingu bankanna, sé talin klár í þessari tillögu. Er nokkuð verið að ýta því til hliðar? Sú rannsókn þyrfti þá að fylgja þeim lögum sem hér eru sett. Er það rétt skilið hjá mér?