145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

kjördagur og áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[15:13]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það var að kvöldi 6. apríl sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði hér í tröppunum að halda ætti kosningar í haust, en nánari dagsetning ætti að ráðast af framvindu þingmála. Síðan gerðist það að hæstv. forsætisráðherra, þá nýtekinn við, hélt fund með stjórnarandstöðunni og gaf henni orð sín fyrir því að kosningar yrðu haldnar í haust.

Nú er 20. apríl og dagsetning er ekki enn komin. Þetta er auðvitað alveg óþolandi og það er ekki síst algjörlega óboðlegt að einstaka stjórnarþingmenn virðast svo vera að reyna að breyta sögunni með því að tala um að kannski verði kosið í haust.

Hæstv. forseti. Það hafa verið sögð mjög skýr orð, bæði af hálfu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, um að það verði kosið í haust. (Forseti hringir.) Nú er sá tími kominn að við verðum að fá dagsetningu því að við þetta verður ekki unað.