145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

kjördagur og áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[15:16]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég geri mér grein fyrir því að forseti mun að sjálfsögðu ekki vera forseti alls þingsins og koma með dagsetningu. Það er bara ekki þannig því að forseti þingsins er alltaf forseti meiri hlutans.

Forseti. Ég viðurkenni mistök. Mér varð það á að trúa spánnýjum forsætisráðherra þegar hann lofaði að leggja fram kjördag og málaskrá. Nú hefur komið í ljós að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki staðið við orð sín. Það að lofa að koma með kjördag og málaskrá er ekki þannig að við getum beðið eftir því vikum saman. Ég hélt satt best að segja, miðað við hvernig hæstv. forsætisráðherra hagaði orðum sínum, að það mundi liggja fyrir á allra næstu dögum. Núna er orðið ansi langt um liðið.

Ég vil enn og aftur skora á forseta Alþingis að sýna að hann sé forseti allra þingmanna og að hann tryggi það að almenningur fái að vita hvenær verði gengið til kosninga. Það er ekkert hægt að draga okkur áfram á asnaeyrunum dag eftir dag og láta eins og ekkert sé, forseti.