145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

kjördagur og áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[15:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er ekki ofsögum sagt að við séum að koma hér enn og aftur til að krefja ríkisstjórnina um að svara því sem á ekki að vera svo flókið. Ég get ekki ímyndað mér hvað það er í rauninni sem er svona flókið. Nú er farinn að leka úr Stjórnarráðinu óskalisti ráðherranna, eða við skulum að minnsta kosti gefa okkur að svo sé. Og það er alveg ljóst eftir það sem kom fram í 10-fréttum ríkissjónvarpsins í gærkvöldi að hæstv. ráðherrar telja að þeir geti afgreitt það á þeim örfáu þingdögum sem eftir eru því að starfsáætlun er í gangi. En þrátt fyrir að hér sé verið að reyna að breyta henni frá degi til dags hefur forseti þingsins ekki lagt fyrir nýja starfsáætlun. Hvernig væri að koma heiðarlega fram og segja, hæstv. forsætisráðherra: Við ætlum ekki að hafa kosningar í haust. Við ætlum ekki að kjósa fyrr en næsta vor af því að það hentar okkur betur. Eða hvað?

Hvað er það sem við eigum að vera að hugsa núna þegar ekki fæst (Forseti hringir.) úr því skorið hvenær á að kjósa og menn ætla að láta það ráðast af framvindu mála? Loforðin hafa verið svikin fram til þessa um það þegar ganga hefur átt til kosninga af hálfu þessarar ríkisstjórnar.