145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

málaskrá og tímasetning kosninga.

[15:33]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka góðar kveðjur á þessum degi. Það er rétt, og ég tek undir það með hv. þingmanni, að það er mikilvægt að gefa lýðræðinu tíma til að undirbúa sig undir kosningar. Þess vegna held ég að við hv. þingmaður hljótum að vera sammála um að óráðlegt hefði verið að ganga til kosninga nú. Það hefði þýtt tafir á verkefnum sem eru brýn, verkefnum sem samfélagið stendur frammi fyrir að þurfa að ljúka á næstu vikum. Þá hefði stjórnmálahreyfingum, nýjum öflum og þeim sem fyrir eru, ekki gefist tími til að undirbúa kosningar og ganga til þess dags að verk manna eru gerð upp, hvernig þeir hafa staðið sig og hvers megi vænta. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er mikilvægt.

Við höfum lýst því yfir að stytta eigi þingið og ekki verði kosið næsta vor á þeim degi sem þá hafði verið áætlað, heldur í haust. Við höfum líka sagt að það séu mörg brýn verkefni sem þurfi að (Forseti hringir.) ljúka og það sé samspil um þau hvenær kosningadagurinn verði. Ég hyggst halda áfram því ágæta samtali sem ég átti (Forseti hringir.) við stjórnarandstöðuna á föstudaginn í síðustu viku og vonast til að við fáum botn í það fljótlega í framhaldinu.