145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

afgreiðsla þingmála fyrir þinglok.

[15:37]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. þingmanni, að hér er þingbundið lýðveldi, þingræði, og framkvæmdarvaldið situr í skjóli þingsins. Ég fór einmitt yfir það í fyrsta andsvari mínu hver sú staða er hér í dag. Þess vegna þarf enginn að velkjast í vafa um það.

Það er mikilvægt að átta sig á því hvernig menn skipuleggja tíma sinn, ég er sammála hv. þingmanni í því. Í því ljósi er sá fundur sem ég hyggst eiga með forseta þingsins seinna í dag; hann snýst um það, og ég hef rætt það áður, að það sé eðlilegt að við endurskoðum starfsáætlun þingsins. Þegar við flýtum kosningum á kjörtímabili þá er líka eðlilegt að við nýtum þann tíma sem fyrir er.

Það eru mjög margir mögulegir þingdagar. Í raun og veru jafn langt og heilt haustþing áður en boðað yrði til kosninga. Það er eitt af því sem við þurfum að ræða við forseta þingsins og forsætisnefnd, biðja hana um að fara yfir þau mál. Einnig þarf að ræða það við forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna og það hyggjumst við gera.