145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

afgreiðsla þingmála fyrir þinglok.

[15:38]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svörin og fagna boðuðum fundi. Ráðherrann minntist á að mögulega séu jafn margir dagar og á haustþingi en því miður hefur reynslan á þessu kjörtímabili sýnt okkur að haustþingin eru ekki endilega mjög afkastamikil ef vinnan er ekki almennilega skipulögð. Í því samhengi held ég að ég hljóti að taka undir með öðrum sem hafa talað hér í dag um mikilvægi þess að við fáum að vita kjördag, ekki að hann sé einhvern tímann í haust því að haust eru frekar löng. Þá er ég ekki bara að hugsa um skipulagningu þingsins, ekki bara skipulagningu stjórnmálaflokkanna eða pólitíkurinnar. Ég þekki fólk sem ætlar að gifta sig í haust og hefur áhuga á að vita hvernig haustið verður. Ég held að allir séu að bíða í ofvæni eftir dagsetningu á þessu langa hausti.