145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

skattaskjól á aflandseyjum.

[15:45]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin svo langt sem þau náðu. Það má af þeim skilja að hann telji að ríkisstjórnin þurfi ekki að eiga neitt sérstakt frumkvæði í þessu máli. Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, sagði: Að mínu mati á Ísland að vera í fremstu röð ríkja í baráttunni — gegn hverju? Gegn starfsemi skattaskjóla. Þar dregur hv. þm. Frosti Sigurjónsson línuna. Er hæstv. ráðherra ekki sammála þeirri skilgreiningu?

Er eðlismunur á máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, sem sagði af sér embætti og máli Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra? Er eðlismunur á þessum málum?

Svo taldi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ekki vera en Bjarni Benediktsson telur svo vera. Ég vil vita hvort hæstv. ráðherra telji þennan mun vera fyrir hendi, eða ekki, vegna þess að það skiptir öllu máli varðandi framvindu málsins.

Síðan vil ég biðja hæstv. ráðherra að svara því skýrt hvort hann telji eðlilegt að þingið afgreiði frá sér tillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um rannsóknarnefnd.