145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

aukaframlag til fréttastofu RÚV.

[15:48]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Fréttastofu RÚV er þröngur stakkur sniðinn. Í ljósi þess að ekki var gert ráð fyrir því á fjárlögum að fara í svo gríðarlega umfangsmikla rannsóknarvinnu sem Panama-skjölin kalla á og líka í ljósi þess hve mikilvægt það er að vönduð vinna eigi sér stað með svo viðamikinn og samfélagslega mikilvægan gagnaleka sem nú þegar hefur leitt í ljós upplýsingar til gagns fyrir landsmenn langar mig að vita hvort hæstv. ráðherra Illugi Gunnarsson geti hugsað sér að nýta skúffufé sitt til að stuðla að því að vinna með þessi gögn geti gengið hratt og vel fyrir sig.

Það er mikið ákall um það í samfélaginu að fá aðgengi að þeim upplýsingum er má finna um þá 600 íslensku aðila sem eru í þessum skjölum og eru þá væntanlega með aflandsfélög á Tortólu.

Ef ráðherra hefur ekki hug á að nýta skúffufé sitt á þennan máta, má ég þá biðja hæstv. ráðherra, Illuga Gunnarsson, um að færa rök fyrir því.