145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

aukaframlag til fréttastofu RÚV.

[15:49]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér á eftir verður rætt um nýgerðan þjónustusamning sem gerður er á milli menntamálaráðuneytisins annars vegar og Ríkisútvarpsins hins vegar. Þar er lögð fram sú sýn sem við deilum sameiginlega, ráðuneytið og Ríkisútvarpið, um hvernig standa skuli að starfsemi Ríkisútvarpsins með almennum hætti næstu árin.

Hvað varðar sérstaka fyrirspurn hv. þingmanns hefur engin beiðni um slíkt komið frá Ríkisútvarpinu eða umkvörtun um að fjármuni skorti til að sinna þeirri fréttaþjónustu eða fréttamennsku sem stofnunin telur nauðsynlega. Á meðan slíkt kemur ekki fram frá Ríkisútvarpinu tel ég auðvitað ekki ástæðu til að verða við einu eða neinu slíku hvað þetta varðar, þ.e. þá þarf að koma fram með skýrum hætti hjá Ríkisútvarpinu að það geti ekki sinnt skyldu sinni með eðlilegum hætti og vanti til þess fjármuni og þá þarf að ræða það með eðlilegum hætti í þinginu.